Ný tillaga um að slíta viðræður við Evrópusambandið (ESB) verður lögð fyrir ríkisstjórn á allra næstu fundum hennar. Næsti ríkisstjórnarfundur verður líklega ekki fyrr en í næstu viku sökum þess að nú stendur yfir kjördæmavika. Vinna við tillöguna er á lokametrunum í utanríkisráðuneytinu. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Blaðið hefur eftir heimildarmönnum sínum innan Sjálfstæðisflokksins að sumir þeirra telji litla nauðsyn á framlagningu tillögunar. Ljóst sé að hún muni taka tíma frá öðrum málum á Alþingi og tíminn til þingfrestunar sé naumur.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að með tillögunni séu forystumenn Sjálfstæðisflokksins að svíkja beinar yfirlýsingar um að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin um framhald viðræðna. "Ef menn ætla að svíkja beinar yfirlýsingar um þetta verður því mætt með eldi og brennisteini".
Meirihluti landsmanna vilja ekki slíta viðræðum
Meirihluti landsmanna vill ekki að aðildarumsókn að Evrópusambandinu verði dregin til baka, samkvæmt nýlegri könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir samtökin Já Ísland. 35,7 prósent vilja að umsóknin verði dregin til baka en 11,1 prósent sögðust hvorki vera fylgjandi né andvígir.
Samkvæmt könnun Capacent Gallup hafa heldur aldrei fleiri verið hlynntir því að Ísland verði aðili að sambandinu en nú, eða 46,2 prósent. Tæp 54 prósent svarenda voru andvígir aðild.
Mikil mótmæli í fyrra
Nokkur þúsund manns mótmæltu nokkrar helgar í röð í febrúar og mars á síðasta ári í kjölfar þess að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra lagði fram tillögu um að slíta viðræðum við ESB. Frumvarpið var lagt fram í kjölfar birtingar skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði um viðræðurnar. Samkvæmt henni voru verulega litlar líkur á því að Ísland geti fengið undanþágur frá grunnregluverki ESB. Skömmu síðar kom útskýrsla Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands sem sýndi allt aðra niðurstöðu og sagði að Ísland hefði þegar náð fram ýmis konar undanþágum.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra er staddur erlendis og verður ekki til viðtals fyrr en fimmtudag. Hann mun leggja fram nýja tillögu um viðræðuslit.
Skipuleggjendur mótmælendanna, og margir þátttakendanna í þeim, töldu að stjórnarflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hefðu lofað því fyrir síðustu kosningar að slíta ekki viðræðum við ESB nema að undangenginni þjóðaratkvæðargreiðslu um málið.
Að endingu var tillagan svæfð í nefnd.
Ný tillaga legið í loftinu
Legið hefur ljóst fyrir undanfarnar vikur að ný tillaga væri á leiðinni. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ljáði máls á því í lok síðasta árs og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, sagði á Alþingi þann 20. janúar að hann gerði ráð fyrir því að ný tillaga yrði lögð fram innan fárra daga.
Hann kallaði jafnframt eftir efnislegri umræðu um það hvað það þýði fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið.