Flugfélag Íslands tekur um þessar mundir á móti þremur notuðum Bombardier Dash 8-Q400 flugvélum sem SAS kyrrsetti árið 2007 eftir vandamál með lendingarbúnað vélanna. Flugfélag Íslands festi kaup á vélunum í mars, eins og Kjarninn greindi frá.
Vélarnar þrjár eru keyptar í stað Fokker 50-flota Flugfélags Íslands, dótturfélags Icelandair, en þær vélar hafa sinnt áætlunarflugi félagsins innanlands og flugi til Grænlands síðan fyrsta vélin kom hingað til lands 1992. Áætlað er að allar fimm Fokker-vélarnar verði teknir úr áætlunarflugi um miðjan mars, þó nákvæm dagsetning liggi ekki fyrir. Vélarnar fimm eru allar til sölu.
Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, segist ekki hafa áhyggur af bilunum í nýju vélunum enda hafi viðhaldsaðferðum SAS verið um að kenna að þrjár vélar flugfélagsins hafi lent í slysum.
Bombardier-vélarnar hafa undanfarið verið í þjónustu Air Niugini í Papúa Nýju-Gíneu í Suðvestur-Kyrrahafi og kaupir Flugfélagið þær þaðan. Air Niugini er einn af stærstu viðskiptavinum Icelandair Group en Loftleiðir hafa leigt þangað vélar í þónokkur ár og hafa íslenskir flugvirkjar unnið með papúska flugfélaginu.
„Við höfum mjög góða reynslu af Bombardier-vélum; höfum rekið minni Bombardier-vélar í tíu ár,“ segir Árni. „Það er ekkert sem við höfum sérstakar áhyggjur af út af þessu. Svona vélar eru í notkun um allan heim og auðvitað koma óhöpp fyrir á þessum vélum eins og öðrum. Það er ekkert við þessar vélar sem er afbrygðilegt eða eitthvað sem óeðlilegt getur talist.“
Árni segir flugfélagið vera í nokkuð góðum málum með þessar nýju vélar. „Það er mjög mikil þekking á rekstri Air Niugini og viðhaldsmálum þar innan Icelandair Group. Við erum búin að fá afhentar tvær af þessum vélum og þriðja kemur um mánaðarmótin. Þær fara svo í innleiðingarferli þar sem þær eru aðlagaðar að okkar kröfum.“
Sé litið lengra í flugsögu þessara Bombardier-véla má sjá að SAS flaug þeim þar til í október 2007. Alls átti SAS 27 svona vélar en síðan þær voru kyrrsettar hefur engin slík sinnt áætlunarflugi skandinavíska flugfélagsins. Allar vélarnar voru í kjölfarið seldar.
„Vandamálið sem SAS barðist við átti eingöngu við flugfélagið SAS. Það kom í ljós að þetta hafði með það að gera hvernig þeir stóðu að viðhaldsmálum á þeim tíma. Þetta var bara innanhússvandamál hjá þeim. Það var enginn annar flugrekandi sem lenti í sambærilegum vandræðum,“ segir Árni og bendir á að vélarnar sem Flugfélag Íslands kaupir nú séu ekki þær sem lentu í þessum óhöppum. Vélarnar sem koma hingað hafi verið í rekstri síðan þær fóru frá SAS, bæði í Evrópu og Asíu.
Ein þessara þriggja Bombardier-véla sem Flugfélag Íslands hefur fest kaup á mun sinna áætlunarflugi fyrir Icelandair til Skotlands. „Ein af þessum vélum verður staðsett í Keflavík og mun byrja í mars á næsta ári að fljúga inn í leiðarkerfi Icelandair fjórum sinnum í viku til Aberdeen.“
Vöxtur Icelandair á undanförnum árum hefur eingöngu átt sér stað með einni stærð flugvéla. Nú ráðgerir flugfélagið að leigja tvær stærri farþegaþotur með vorinu 2016 og fljúga þeim í leiðarkerfi félagsins. Um leið verður Bombardier-vél Flugfélags Íslands flogið reglulega til Aberdeen. Árni segir Icelandair vera þannig að auka breidd sína í sætaframboði.
Vandræði SAS með hjólabúnaðinn
Slys í lendingu á Kaupmannahafnarflugvelli laugardaginn 27. október 2007 varð til þess að vélarnar voru kyrrsettar. Stuttu eftir að vélin á Kastrupflugvelli lenti gaf hjólabúnaður vélarinnar eftir og hún skautaði á maganum eftir flugbrautinni. Áður höfðu áhafnir Bombardier-véla SAS lent í vandræðum með lendingarbúnað, en þó aldrei með svo alvarlegum afleiðingum. Á innan við tveimur mánuðum urðu þrjú óhöpp sem rekja mátti til bilunar í hjólabúnaði Bombardier-vélanna.
Flugmálayfirvöld í Danmörku vöruðu SAS við árið 2004 að alvarlegur galli væri á vélunum sem gætu haft í för með sér að vænghlutar gæfu sig með þeim afleiðingum að flugmennirnir misstu stjórn á vélinni. SAS viðhafðist ekkert og flaug vélunum til ársins 2007. Það var ekki fyrr en árið 2008 að SAS uppgvötaði að aðvörunin hafði týnst í tölvukerfi félagsins.
SAS er þó ekki eina flugfélagið sem hefur lent í vandræðum með hjólabúnað véla af þessari gerð. Síðasta bilun hjólabúnaðar í Bombardier Dash 8-vél var 7. nóvember í fyrra þegar vél Air Canada þurfti að nauðlenda því flugmaðurinn hafði tekið eftir vandræðum í flugtaki. Hann hélt að aðeins væri um sprungið dekk að ræða en við lendingu gaf hjólabúnaðurinn hægra megin eftir með þeim afleiðingum að hreyfillinn lenti í jörðinni og spaðarnir brotuðu af. Einn spaði hreyfilsins stakkst í gegnum glugga á skrokki vélarinnar og slasaði eina manneskju.