Nýr frétta- og mannlífsmiðill 24 – Þínar fréttir mun hefja göngu sína næstkomandi mánudag, 11. október. Miðillinn mun leggja áherslu „á dýpt og gæði í efnisvali“.
Þetta má sjá á vefsíðu miðilsins sem er kominn í loftið. Þar kemur fram að fjölmiðillinn bjóði upp á „öfluga rannsóknarblaðamennsku, beittar greinar, áhugaverð viðtöl, umfjöllun um stjórnmál, menningu og heilsu“.
Fjölmiðlum á Íslandi ber að skrá sig hjá Fjölmiðlanefnd, sem annast eftirlit með skráningarskyldu, veitir leyfi til hljóð- og myndmiðlunar og tryggir að lögboðnar upplýsingar um allar fjölmiðlaveitur séu til staðar.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans hefur nýi miðillinn, 24, enn ekki verið skráður hjá Fjölmiðlanefnd.
Samkvæmt skráningarskírteini lénsins www.24.is er rétthafi þess einstaklingur sem er skráður með NIC-auðkennið KKG20-IS. Sami einstaklingur greiddi fyrir notkun á léninu.
Uppfært 13. október 2021:
Í fréttatilkynningu um nýjan fjölmiðil, 24.is, kemur fram að ritstjóri hans sé Kristjón Kormákur Guðjónsson. Aðrir stofnendur eru Tómas Valgeirsson, Sunna Rós Víðisdóttir og Guðbjarni Traustason, en sá síðastnefndi er framkvæmdastjóri útgáfunnar.