Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur tilkynnt að Þórdís Jóna Sigurðardóttir, fyrrverandi framkvæmdastýru Hjallastefnunnar, sem nýjan forstjóra Menntamálastofnunar. Samhliða hefur verið tilkynnt um viðamiklar breytingar sem ráðist verður í á menntakerfinu, sem felur meðal annars í sér að Menntamálastofnun verður lögð niður.
Í stað hennar verður ný stofnun sett á laggirnar. Í tilkynningu á vef ráðuneytisins segir að hlutverk nýrrar stofnunar sé að tryggja að „tryggja gæði menntunar og aðgengi allra nemenda, foreldra og starfsfólks skóla að samþættri, heildstæðri skólaþjónustu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi“.
Þórdís mun leiða þá nýju stofnun sem sett verður á fót eftir að Menntamálastofnun verður lögð niður og ráðning hennar gildir til fimm ára. All sóttu 14 um starf forstjóra Menntamálastofnunar.
Þórdís sóttist eftir að leiða lista Viðreisnar í Reykjavíkurborg fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar en náði ekki því markmiði. Þess í stað var hún í þriðja sæti framboðslistans. Stundin greindi frá því í síðasta mánuði að Þórdís hafi verið keypt út úr Hjallastefnunni, en hún átti hlutabréf í fyrirtækinu, eftir að hún lauk þar störfum fyrir 55 milljónir króna.
Ætla að kynna viðamiklar breytingar í hádeginu
Í tilkynningu mennta- og barnamálaráðuneytisins segir að í dag verði kynntar viðamiklar breytingar sem ráðist verður í á menntakerfinu. Þær verða kynntar í hádeginu í dag á blaðamannafundi. Auk niðurlagningar menntastofnunar og nýrri stofnun í hennar stað fela þær þó meðal annars í sér, samkvæmt tilkynningu, að skólaþjónusta verði styrkt þvert á skólastig með nýjum heildarlögum um skólaþjónustu. „Hlutverk nýrrar stofnunar er að tryggja gæði menntunar og aðgengi allra nemenda, foreldra og starfsfólks skóla að samþættri, heildstæðri skólaþjónustu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.“
Í tilkynningu ráðuneytisins segir að hún hafi umfangsmikla reynslu af fjölbreyttum umbreytingarverkefnum innan menntakerfisins og víðar og starfað við góðan orðstír. „Þar má nefna uppbyggingu MBA-náms og stjórnendaskóla Háskólans í Reykjavík; endurskipulagningu fjármála, stjórnunar og skipulags í Hjallastefnunni; stefnumótun, sameiningu og endurskipulagningu fjölda fyrirtækja, íslenskra sem erlendra; auk aðkomu að endurskipulagningu, mótun og innleiðingu stefnu hjá fjölda stofnana.
Á starfsferli sínum hefur Þórdís Jóna komið að verkefnum úr ólíkum áttum m.a. sem framkvæmdastjóri, forstjóri, stjórnarmaður og stjórnarformaður. Víðtæk og umfangsmikil reynsla Þórdísar mun nýtast einkar vel í þeim verkefnum sem framundan eru við mótun nýrrar stofnunar sem ætlað er að styðja heildstætt við skólaþróun og farsæld barna til framtíðar.“
Engin heildarlöggjöf til staðar
Í tilkynningunni er haft eftir Ásmundi Einari að engin heildarlöggjöf sé til staðar um skólaþjónustu fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og að engin miðlæg stofnun sé með skilgreint hlutverk að framkvæma og samhæfa þessa þjónustu. „Aðgengi að þjónustu og ráðgjöf er mismunandi, bæði milli og innan skólastiga og sveitarfélaga, sem leiðir til ójafnræðis,“ segir Ásmundur. „Við þurfum að samhæfa kerfin til að tryggja yfirsýn, skilvirkni og gæði þjónustunnar, svo sem þegar nemendur flytjast á milli skóla eða færast milli skólastiga. Meiri ráðgjöf við starfsfólk skóla og stuðningur við skólastarfið leiðir til hraðari og skilvirkari úrræða fyrir börn og ungmenni. Allt sem við gerum á að miða að farsæld þeirra.“
Markmið nýrra laga um skólaþjónustu verði að tryggja öllum skólum faglegt bakland í sínum fjölbreyttu verkefnum ásamt því að efla þverfaglega samvinnu milli skóla-, félags- og heilbrigðisþjónustu í þágu nemenda.
Ný stofnun muni taka við hluta verkefna Menntamálastofnunar en eftirlit með skólastarfi verði aðgreint frá þjónustu og ráðgjöf og færist til mennta- og barnamálaráðuneytisins fyrst um sinn.
Áformin verða kynnt í samráðsgátt stjórnvalda seinna í dag. Í kjölfarið er fyrirhugað að eiga víðtækt samráð við haghafa um verkefni nýrrar stofnunar og útfærslu skólaþjónustu til framtíðar.