Með nýjum vef mun Kjarninn sækja fram og skerpa á sérstöðu sinni sem framúrskarandi fréttaskýringavefur, og efla tengslin við lesendur, notendur og ekki síst áskrifendur.
Hjálmar Gíslason, stjórnarformaður Kjarnans, segir mikil tækifæri framundan fyrir ungan, framsækinn og traustan fjölmiðil. „Kjarninn hefur frá upphafi lagt áherslu á að gera fáa hluti vel. Eftir lærdómsríkan og árangursríkan tveggja ára starfstíma, er Kjarninn nú að stíga stórt skref í framþróun sinni með nýjum vef sem við erum stolt af. Við höfum náð miklum árangri að undanförnu og hyggjumst leggja enn meiri áherslu á að efla Kjarnasamfélagið, það er samband Kjarnans við lesendur, notendur og ekki síst áskrifendur, með margvíslegum hætti. Það er enginn svikinn að því að efla Kjarnann með mánaðarlegu framlagi, og það er mikil hvatning fyrir fjölmiðilinn, að finna fyrir jafn miklum meðbyr þessi misserin, og raun ber vitni.“
Í takt við grunngildi Kjarnans um að vanda til verka, þá hefur Kjarninn tekið höndum saman með hinni metnaðarfullu og vönduðu bókaútgáfu Crymogeu, og hyggst gefa fimm áskrifendum Vínbókina glæsilegu, alla föstudaga fram að jólum.
Kjarninn heldur úti fréttavefnum Kjarninn.is og hóf fyrr á þessu ári að bjóða upp á daglega og vikulega fréttaþjónustu í áskrift á ensku, einkum fyrir fyrirtæki, stofnanir, sendiráð og fjárfesta, bæði hér á landi og erlendis. Vikulegt fréttabréf Kjarnans á ensku nefnist The Weekly Report.