Nýr vefur RÚV var hannaður frá grunni af nýmiðladeild RÚV og hönnun hans byggir á þjónustukönnunum og ábendingum þar sem um níu þúsund notendur ruv.is lögðu meðal annars fram ábendingar. Kostnaður við gerð vefsins er því sú vinna sem starfsmenn nýmiðladeildarinnar lögði í hann í þá átta mánuði sem ferlið tók frá fyrstu hönnunarskissum og þangað til að vefurinn fór í loftið. Við það bætist tímavinna hönnuða og kerfisstjóra við uppsettningu vefþjóna, en áætlun gerði ráð fyrir að kostnaður vegna þeirra yrði um fjórar milljónir króna. Endanlega krónutala kostnaðar vegna nýja RÚV-vefsins, sem fór í loftið í síðustu viku, liggur því ekki fyrir.
Þetta kemur fram í svörum Ingólfs Bjarna Sigfússonar, nýmiðlastjóra RÚV, við fyrirspurn Kjarnans um vefinn.
Endanlegur kostnaður liggur ekki fyrir
Ingólfur Bjarni segir að vefurinn hafi verið hannaður og unninn samhliða öðrum daglegum rekstri fyrri vefs. „Starfsmenn á sviðinu eru fjórir og sinna þeir forritun, hönnun og öðru sem tilheyrir vef og nýmiðlun. Við gerðum rannsóknir og kannanir, skilgreindum markmið, tókum mið af tækniþróun og almannaþjónustuhlutverki RÚV. Þá vildum við koma ritstjórnarbreidd RÚV betur á framfæri. Grunnhugmyndirnar fóru svo í gegnum rýnihópa og loks í forritun. Á síðari stigum komu svo tveir afar færir hönnuðir, þeir Björn Salvador og Jón Frímannsson, að verkinu, til að fínteikna og hanna ákveðna afmarkaða þætti.“
Aðspurður um hver heildarkostnaður við gerð vefsins hafi verið segir Ingólfur Bjarni að endanleg tala liggi ekki fyrir.
Aðspurður um hver heildarkostnaður við gerð vefsins hafi verið segir Ingólfur Bjarni að endanleg tala liggi ekki fyrir. „Heildarkostnaðurinn er í raun sú vinna starfsmanna deildarinnar sem fór í hönnun nýs vefs á þessum tímabili en það var rétt rúmir átta mánuðir frá því fyrstu hönnunarskissur voru gerðar þar til vefurinn fór í loftið. Við það bætist tímavinna hönnuða og kerfisstjóra við uppsetningu vefþjóna. Þar sem vefurinn var að fara í loftið liggur ekki fyrir endanleg fyrir hver endanleg tala var hvað þetta varðar."
Átti upphaflega að fara í loftið í október
Vinna við vefinn hefur því staðið yfir í marga mánuði. Upphaflega voru uppi hugmyndir um að vefurinn færi í loftið í október, en hann fór á endanum ekki í loftið fyrr en 3. mars, eða í byrjun síðustu viku. Ingólfur Bjarni segir að tímaásinn hafi ekki verið aðalmarkmiðið í vinnu við vefinn heldur að gera vef sem virkaði í öllum tækjum, uppfyllti ákveðin markmið sem sett voru og að hann yrði örugglega jákvæð og villulaus upplifun fyrir notendur. „Upphaflega voru hugmyndir um að fara í loftið í október síðastliðnum en það hefði kallað á aukinn kostnað og því var ákveðið að gefa okkur ögn lengri tíma til að vinna vefinn og vinna hann meira innanhúss með núverandi starfsmönnum. Svo var markmiðið að fara í loftið í febrúarmánuði en að endingu opnaði vefurinn 3. mars síðastliðinn.“