Nýsjálendingurinn Lance Abernethy, sem starfar sem viðgerðarmaður hjá verksmiðju í Auckland, fékk flugu í höfuðið á dögunum og réðst í að þrívíddarprenta minnstu borvél í heimi. Ekki nóg með það, heldur virkar borvélin líka eins og til var ætlast. Fréttamiðillinn Quartz greinir frá uppátækinu, en fréttasíðan 3dprint.com, sem sérhæfir sig í fréttum af þrívíddarprentunum, sagði fyrst frá málinu.
Abernethy notaði borvél í fullri stærð, sem hann notast mikið við, sem eftirmynd. „Ég reyndi að gera hana eins litla og mögulegt er, og tróð íhlutunum eins þröngt inn í borvélina og ég gat,“ er haft eftir uppátækjasama Nýsjálendingnum í umfjöllun 3dprint.com.
Hér má glögglega sjá hversu lítil borvélin er, og hvernig íhlutum hennar hefur verið komið fyrir.
Það tók um 25 mínútur að þrívíddarprenta borvélina, í þremur hlutum. Fyrst var borvélin prentuð í tveimur helmingum, og svo var lítill íhlutur prentaður sem settur var framan á agnarsmátt „vélarhúsið.“ Abernathy notaði svo litla rafhlöðu úr heyrnartæki sem orkugjafa og agnarsmáan mótor og setti inn í prentaða borvélina. Til að tengja saman vélbúnaðinn notaði hann svo vír úr snúru úr heyrnartólum.
„Það tók mig um þrjá klukkutíma að troða vélbúnaðinum inn í borvélina. Vírinn var alltaf að slitna þegar ég var að reyna að tengja íhlutina saman, og það var algjör martröð að halda þeim öllum á sínum stað án þess að klára rafhlöðuna,“ segir Abernethy.
Borvélin er 17 millimetrar á hæðina og 7,5 millimetrar á breidd. Hún er með 0,5 millimetra bor sem getur borað sig í gegnum mjúka mótstöðu. „Ég hef séð myndir af borvél, sem taldar eru minnstu sinnar tegundar í heiminum, en ég veit að mín er minni án þess að hafa fengið það staðfest.“
Sjáið virkni borvélarinnar í myndbandinu hér að neðan.