Nýtt bóluefni gegn ebólu hefur skilað hundrað prósent árangri í fyrstu prófunum í Gíneu og standa vonir til að bóluefnið bindi enda á ebólufaraldurinn sem geyst hefur í Gíneu, Síerra Leóne og víðar í Vestur-Afríku frá því í desember 2013. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, segir bóluefnið geta gjörbreytt stöðunni (e. possible game-changer) og sérfræðingar segja niðurstöður prófana afar merkilegar. Erlendir fjölmiðlar fjalla um málið í dag, meðal annars BBC og The Guardian.
Í umfjöllun BBC segir að tilvist bóluefnisins fyrir átján mánuðum hefði bjargað þúsundum manna sem látist hafa af völdum ebólu. Vonir standa til að með bóluefninu megi koma í veg fyrir að ebólufaraldur breiðist út aftur.
Til þessa hefur nýja bóluefnið skilað fullkomnum árangri, en sérfræðinga WHO segja að hlutfallið geti lækkað eftir því sem frekari gagna er aflað. Í umfjöllun The Guardian segir að bóluefnið sé árangur samstarfs vísindamanna, lækna, styrktaraðila og lyfjafyrirtækja við að búa til bóluefnið gegn ebólu. Slíkt ferli tekur oft meira en áratug en hefur nú verið gert á tólf mánuðum, ef þessar fyrstu niðurstöður halda.
„Þetta nýja bóluefni, ef niðurstöðurnar halda, gæti verið silfurkúla gegn ebólu og hjálpað við að binda enda á yfirstandandi faraldur og komið í veg fyrir að slík útbreiðsla gerist aftur,“ sagði Børge Brende, utanríkisráðherra Noregs, í dag en Noregur lagði til fjármagn við að búa til og framleiða bóluefni.
Verulega hefur hægt á útbreiðslu ebólu eftir að faraldurinn náði hámarki síðla árs 2014. Alls hafa komið upp 27,748 ebólutilfelli í Gíneu, Líberíu og Síerra Leóne fram til 26. júlí síðastliðinn og þar af hafa 11.279 dauðsföll verið skráð. Tala látinna er mögulega hærri, þar sem ekki er vitað um afdrif allra þeirra sem veiktust.