Í nýju frumvarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um veiðigjöld er gert ráð fyrir því að þau haldist óbreytt á næsta fiskveiðiári. Frumvarpið er tilbúið til framlagningar en mikil leynd hvílir yfir efni þess. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir að ekki sé ljóst hvort óbreytt gjald vísi til þess að heildarupphæð veiðigjalda verði sú sama eða hvort um sé að ræða óbreyttrar krónutölu á tegundir. Óbreytt krónutala myndi skila ríkissjóði mun hærri veiðigjaldi, sérstaklega vegna aukinnar loðnuveiði. Fréttablaðið segir að heimildum sínum beri ekki saman um hvort frumvarpið verði til bráðabirgða eða hvort um varanlega lausn sé að ræða, en að Sigurður Ingi vilji síðari kostinn.
Til stóð að breytingar á veiðigjöldum yrðu hluti af frumvarpi um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem var tilbúið í fyrrahaust en hefur ekki verið lagt fram vegna ágreinings innan ríkisstjórnarflokkanna um efni þess. Í gildi er bráðabirgðaákvæði um veiðigjöld og það þarf að framlengja fyrst fiskveiðistjórnarfrumvarpið verður ekki lagt fram. Það liggur á að leggja veiðigjaldafrumvarpið fram, því frestur til þess rennur út í lok marsmánaðar.