Farþegar í millilandaflugum Icelandair í júlí voru 415 þúsund talsins og fjölgaði um 17 prósent miðað við júlí 2014. Farþegafjöldinn er sá mesti í einum mánuði frá stofnun félagsins. Sætanýtingin var 88,9 prósent og jókst um 3,2 prósentustig milli ára. Hún hefur aldrei verið hærri í júlí. Framboðsaukning milli ára nam 14 prósentum.
Icelandair Group tilkynnti um þetta í tilkynningu til Kauphallar, eftir lokun markaða í dag. Fram kemur að farþegar í innanlandsflugi og Grænlandsflugi voru 33 þúsund í júlí. Framboð félagsins á þessum flugum var dregið saman um fimm prósent miðað við júlí 2014. Sætanýtingin var 77,4 prósent og jókst um 5,1 prósent milli ára.
Seldum blokktímum í leiguflugi fjölgaði um 21 prósent milli ára. Fraktflutningar jukust um 3 prósent frá því á síðasta ári. Fjöldi seldra gistinótta á hótelum félagsins jókst um 5 prósent milli ára. Herbergjanýting var 90,4 prósent samanborið við 89,1 prósent í júlí 2014.
Gengi bréfa Icelandair Group í Kauphöllinni var 26,2 krónur á hlut við lok viðskipta í dag og lækkaði um 0,4 prósent í 102 milljóna króna viðskiptum. Gengi bréfanna hefur hækkað nokkuð að undanförnu en það stóð í um 21,5 krónum á hlut í byrjun maímánaðar.