Landsnet og þýska fyrirtækið PCC hafa undirritað nýtt samkomulag um raforkuflutninga vegna kísilvers á Bakka við Húsavík. Fyrra samkomulag hefur verið til rannsóknar hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA)vegna gruns um að hann feli í sér ólögmæta ríkisaðstoð.
Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir að samningurinn sem hefur nú verið undirritaður sé efnislega eins og sá fyrri. „Í nýja samningnum eru nánari útskýringar á þeim atriðum sem ESA var að spyrja um sem snúa að því hvort um sé að ræða ríkisstyrki eða ekki. Við höfum verið í viðræðum við ESA og sendum síðan inn samninginn óundirritaðan. Þeir svöruðu okkur til baka að nú væri okkur óhætt að undirrita samninginn og senda hann til þeirra að nýju. Þá fer þetta formlega ferli í gang sem getur staðið í allt að tvo mánuði. En við erum búnir að fá vísbendingar um að samningurinn sé í lagi.“
Samkvæmt samkomulaginu á Landsnet að tryggja orkuflutning til kísilvers PCC frá meginflutningskefinu og þeim framleiðslueiningum sem munu tryggja verkefninu raforku. Miðað er við að orkuafhending hefjist í nóvember 2017. Áætluð aflþörf fyrsta áfanga verksmiðjunnar er 52 megavött. Gert er ráð fyrir að kísilverið geti skapað um 125 framtíðarstörf. Heildarkostnaður vegna tengingar iðnaðarsvæðisins við Þeistareykjavirkjunar er metinn á tæplega fimm milljarða króna.