Nýútskrifaðir sjúkraþjálfarar byrja að veita þjónustu án greiðsluþátttöku ríkisins

Á nokkrum sjúkraþjálfarastofum er nú hægt að bóka þjónustu nýútskrifaðra sjúkraþjálfara, en þá þarf að greiða fullt verð fyrir tímann, vegna ákvæðis í reglugerð heilbrigðisráðherra. Tveir eigendur stofa segja þetta ekki gott fyrir skjólstæðinga.

Nýútskrifaðir sjúkraþjálfarar hafa sem sakir standa ekki kost á því að starfa á einkareknum stofum innan greiðsluþátttökukerfis hins opinbera fyrr en eftir tveggja ára starf í greininni.
Nýútskrifaðir sjúkraþjálfarar hafa sem sakir standa ekki kost á því að starfa á einkareknum stofum innan greiðsluþátttökukerfis hins opinbera fyrr en eftir tveggja ára starf í greininni.
Auglýsing

Nokkrar sjúkraþjálfarastofur hérlendis eru byrjaðar að bjóða skjólstæðingum sem til þeirra leita upp á að bóka tíma hjá nýútskrifuðum sjúkraþjálfurum, en greiða fullt gjald fyrir þjónustuna, án greiðsluþátttöku hins opinbera. Tveir stofueigendur sem Kjarninn ræðir við segja að tvöfalt kerfi í sjúkraþjálfun sé með þessu að verða til á Íslandi, á meðan ekkert breytist.

Þau segja að þetta sé að gerast vegna ákvæðis í reglugerð Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, sem gerir sjúkraþjálfurum ókleift að starfa sjálfstætt samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) fyrr en þeir hafa unnið sem sjúkraþjálfarar í tvö ár í að minnsta kosti 80 prósent starfshlutfalli.

Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar sögðu sig af samningi við SÍ í febrúar í fyrra og samningaviðræður hafa ekki enn borið árangur. Greiðsluþátttaka SÍ vegna þjónustu þeirra er því ákvörðuð með reglugerð þessa dagana. Hún hefur verið framlengd nokkrum sinnum og er nýjasta útgáfa hennar í gildi út ágústmánuð.

Takmarkanirnar á starfsmöguleikum nýútskrifaðra bættust inn í reglugerð ráðherra í desember í fyrra og var harðlega mótmælt í vetur, en ráðuneytið hefur hvergi hvikað frá stefnu sinni.

Gauti Grétarsson einn eigenda Sjúkraþjálfunar Reykjavíkur og Garðabæjar segir þá stöðu sem upp sé komin ekki slæma fyrir hann eða aðra eigendur stofunnar, heldur fyrst og fremst fyrir þá sem þurfi á þjónustu sjúkraþjálfara að halda. „Fólkið þarf að borga sjálft,“ segir hann einfaldlega og telur skjóta skökku við að þetta sé að gerast á meðan „við þykjumst vera samfélag sem er að niðurgreiða heilbrigðisþjónustu.“

Gauti Grétarsson sjúkraþjálfari og einn eigenda SRG. Mynd: Aðsend

Bíða eða borga?

„Við erum með tvo sjúkraþjálfara sem voru að útskrifast núna og þeir koma inn núna og byrja að vinna utan samnings. Þá rukkum við fullt fyrir þá og skjólstæðingurinn borgar meira. Það eru fleiri stofur sem eru að fara í þetta sama, því kúnninn þarf þjónustu. Ef þú ert að drepast, þá hefur þú ekkert val. Þú verður bara að borga það sem beðið er um,“ segir Gauti, en einn tími í sjúkraþjálfun án greiðsluþátttöku hins opinbera kostar um 8 þúsund krónur.

Auður Ólafsdóttir einn eigenda sjúkraþjálfunarinnar Styrks í Reykjavík hefur svipaða sögu að segja. Hún segir vanta fleiri sjúkraþjálfara í stéttina, biðlistar séu víða langir á einkareknum stofum og hennar stofa hafi auglýst eftir sjúkraþjálfara sem gæti starfað innan opinbera kerfisins á vormánuðum, án árangurs.

Einn nýútskrifaður sjúkraþjálfari byrjar að veita þjónustu sína hjá Styrk á næstu dögum, en þeir sem til hennar koma munu ekki njóta greiðsluþátttöku hins opinbera, heldur bera kostnaðinn alfarið sjálfir.

Auður Ólafsdóttir sjúkraþjálfari og einn eigenda Styrks. Mynd: Af vef Styrks.

Spurð hvernig skjólstæðingar taki því, er þeim sé sagt að þeir muni þurfa að bera fullan kostnað af þjónustunni, segir hún að það sé æði misjafnt. „Það eru einhverjir sem eru tilbúnir, segjast verða að komast að og taka því að borga fullt gjald, en sumir segja nei og segjast ætla að reyna á öðrum stofum. En við vitum alveg hvernig ástandið er, það er biðlisti allstaðar,“ segir Auður, sem telur að þeir sem hafi minna á milli handanna þurfi að sætta sig við biðina fremur en þeir sem fjáðari eru.

Hún segir fólk ekkert geta fengið niðurgreitt, nema mögulega ef það fari í stéttarfélagið sitt. „Við bendum fólki á það,“ segir Auður, en bætir reyndar við að eftir að greiðsluþátttaka hins opinbera var aukin árið 2017 hafi mörg stéttarfélög að sama skapi dregið úr niðurgreiðslu sjúkraþjálfunar félagsmanna sinna. Sumir komi því að tómum kofanum þar.

Yfirvöld viðurkenni ekki að þörfin sé að aukast

Gauti var staddur í Noregi er Kjarninn náði af honum tali í vikunni. Hann segir kerfið þar í landi þegar orðið eins og hann telur að stefni í á Íslandi, ef fram haldi sem horfi. Þar sé þriggja mánaða bið eftir því að komast inn í opinbera kerfið en engin bið utan þess. „Þannig mun staðan verða heima ef þessu verður ekki breyst á næstunni,“ segir Gauti.

Hann segir að í samningaviðræðum við sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara hafi Sjúkratryggingar Íslands og heilbrigðisráðuneytið horft í það að kostnaður við sjúkraþjálfun í bókhaldi ríkisins hafi farið hækkandi á undanförnum árum.

Í samningum um sjúkraþjálfun utan sjúkrahúsa hefur verið greitt fyrir hvert unnið verk og var það gagnrýnt í skýrslu Ríkisendurskoðunar um SÍ sem kaupanda heilbrigðisþjónustu, sem kom út árið 2018. Þetta fyrirkomulag var sagt leiða til þess að hvati myndaðist fyrir sjúkraþjálfara til þess að veita meiri þjónustu. Yfirvöld eru að reyna að vinda ofan af þessu í nýjum samningum við sjúkraþjálfara.

Auglýsing

Gauti segir þó að yfirvöld horfi skakkt á hlutina. Aukna ásókn í sjúkraþjálfun (og þar með kostnað samfélagsins af því að taka þátt í að veita fólki hana) megi rekja til versnandi lífsstíls þjóðarinnar með aukinni setu við tölvuskjái og sömuleiðis þess að ríkið byrjaði fyrir nokkrum árum að taka meiri þátt í kostnaðinum við sjúkraþjálfun.

Hann segir heimsfaraldurinn með tilheyrandi heimavinnu skrifstofufólks ekki hafa bætt úr skák og margir séu illa á sig komnir vegna slæmrar vinnuaðstöðu. „Fólk situr alveg við svakalegar vinnuaðstæður, í klessu í einhverju herbergi,“ segir Gauti.

„Þegar þjónustan verður ódýrari, þá aukast líkur á að fleiri sæki í úrræðin. Nú kostar ekkert fyrir börn og unglinga í sjúkraþjálfun og þá hafa foreldrar kannski frekar efni á að senda börnin sín í sjúkraþjálfun, ef eitthvað er að. Einnig ungt fólk, í menntaskóla og háskóla, sem ekki hafði efni á sjúkraþjálfun, það hefur núna efni á að sækja sér sjúkraþjálfun því nú er það ódýrara. En það er þá auðvitað dýrara fyrir samfélagið,“ segir Gauti.

Hann segist hafa varað við aukinni greiðsluþátttöku ríkisins í sjúkraþjálfun er verið var að gera breytingar á henni árið 2017. „Ég man að ég spurði á sínum tíma, á einhverjum kynningarfundi, hvort búið væri að tryggja fjárveitingar fyrir þessum breytingum. Sjúkratryggingar sögðu bara: „Hafðu ekki áhyggjur af því Gauti minn,“ en svo fylgja ekki fjármunir í þennan málaflokk.“

Ríkið ekki tilbúið að borga einingaverð sem sjúkraþjálfarar sætta sig við

Auður, sem sinnir trúnaðarstörfum fyrir Félag íslenskra sjúkraþjálfara og var formaður félagsins á öldinni öndverðri, segir að reglugerðarbreytingin sem gerir nýútskrifuðum ókleift að starfa sjálfstætt innan kerfis hafi verið hálfgerð þvingunaraðgerð af hálfu SÍ og heilbrigðisráðuneytisins, til þess að fá sjúkraþjálfara til þess að semja.

Raunar segir Auður að sjúkraþjálfarar séu tilbúnir að semja „en það hafa ekki verið samningaviðræður í gangi nema núna aðeins í mars, apríl og maí og það hefur bara strandað á umboði SÍ til að semja við okkur um það einingaverð sem við sættum okkur við.“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Mynd: Heilbrigðisráðuneytið

Hún segir að með væntanlegum samningi sé verið að setja ramma utan um það fjármagn sem yfirvöld vilja setja í sjúkraþjálfun. „Þá er verið að semja við stofurnar um ákveðið einingaverð og ákveðið margar einingar á ári og ramma þannig inn útgjöldin. Áður fyrr var samningurinn þannig að það útskrifaðist bara heill árgangur og þau fóru bara öll að vinna sjálfstætt starfandi á samningi og það var bara eins og opinn tékki, það var enginn rammi utan um útgjöld í sjúkraþjálfun,“ segir Auður.

Auður segir að í maí, þegar síðast voru samningafundir í deilunni, hafi sjúkraþjálfarar komist að því fjármagnið sem til stóð að setja inn í samninginn við sjúkraþjálfara hefði verið lægra en útgjöld ríkisins vegna sjúkraþjálfunar árið 2019, þegar síðasti samningurinn rann út. Því sé ríkið í raun að bjóða skerðingu á fé inn í geirann og á henni er að heyra að sjúkraþjálfarar séu ekki fúsir til þess að semja um að lækka launin sín.

Hún segir þörfina fyrir sjúkraþjálfun mikla og vaxandi og telur að ráðherra gæti brugðist við með tvennum hætti, til þess að höggva á hnútinn í samningum við sjúkraþjálfara.

Auglýsing

Annars vegar væri hægt að finna aukið fjármagn til þess að fá sjúkraþjálfara til að semja. Ef það fjármagn finnst ekki væri hægt að fara í „heilsupólitík“ og undanskilja einhverja skilgreinda sjúklingahópa frá greiðsluþátttöku ríkisins er kemur að sjúkraþjálfun eða sækja fjármuni jafnt í vasa allra sjúklinga, með minni greiðsluþátttöku hins opinbera.

Forvarnahlutverk sjúkraþjálfara gleymist

Gauti segir að það gleymist stundum að sjúkraþjálfun sé mikilvægur þáttur forvarna í heilbrigðisþjónustunni hér á landi og komi í veg fyrir að ríkið neyðist til að verja peningum í aðra hluti í kerfinu, eins og til dæmis niðurgreiðslu sterkra verkjalyfja sem kvalið fólk þarf á að halda til þess að halda haus frá degi til dags.

Hann bendir á að í fyrra hafi kostnaður hins opinbera við sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og fleira numið rúmum 4,9 milljörðum króna, eða 0,17 prósentum af vergri landsframleiðslu, samkvæmt tölum frá Hagstofunni. Það segir Gauti smáaura í stóra samhenginu.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Steinar Frímannsson
Góð, en stundum þokukennd stefna – Umhverfisstefna Viðreisnar
Kjarninn 19. september 2021
Tugir innherjasvikamála órannsökuð þegar Fjármálaeftirlitið hætti rannsóknum
Fyrrverandi rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins eftir hrun bankakerfisins segir sögu sína í bók sem brátt kemur út í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann segir stór mál enn hafa verið órannsökuð þegar FME slaufaði rannsóknarteymum sínum.
Kjarninn 19. september 2021
Þegar Pia Kjærsgaard var forseti danska þingsins á árunum 2015-2019 lét hún hengja upp stóran danskan fána í þingsalnum.
Uppgjör
Árlegt flokksþing Danska þjóðarflokksins fer fram nú um helgina. Það er haldið í skugga deilna um forystu flokksins og hrapandi fylgi. Háværar raddir hafa heyrst um nauðsyn þess að skipta um formann og eitt kunnuglegt nafn heyrst æ oftar: Pia Kjærsgaard.
Kjarninn 19. september 2021
Loðfílar hafa veirð útdauðir í um tíu þúsund ár.
Ætla sér að koma loðfílum á legg innan sex ára
Fyrirtækið Colossal segir loðfíla geta reynst vel í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og ætla sér að búa þá til með því að blanda erfðaefni þeirra við frumur Asíufíls. Aðrir vísindamenn efast um ágæti verkefnisins.
Kjarninn 18. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent