Þolendur andlegs, líkamlegs og kynferðislegs ofbeldis verða fyrir óáþreifanlegum kostnaði sem nemur allt að sex milljónum króna á hverju ári. Þetta eru á meðal niðurstaðna rannsóknarhópsins ConCIV í hagfræðideild Háskóla Íslands.
Hjördís Harðardóttur, sem er nýdoktor í Háskóla Íslands og meðlimur ConCIV, greindi frá þessum niðurstöðum og starfsemi hópsins í þriðja þætti Ekon, sem sjá má hér fyrir neðan. Í þáttunum, sem einnig má nálgast í Hlaðvarpi Kjarnans, fær hagfræðingurinn Emil Dagsson til sín sérfræðinga úr ýmsum áttum till að fjalla um hagfræðileg málefni og önnur mál tengd íslenskum efnahag.
Betri aðferð til að meta miskabætur
Samkvæmt Hjördísi geta niðurstöður um óáþreifanlegan kostnað ofbeldis verið mikilvægar samfélaginu á margan hátt. Til dæmis gæti dómskerfið haft slíka útreikninga til hliðsjónar þegar ákvarða á miska fyrir ofbeldi, en stjórnvöld gætu líka notað þá til þess að ákvarða hversu miklum hluta almannafjár ætti að verja í ofbeldisforvarnir.
Aðferðirnar sem ConCIV notar til þess að meta slíkan kostnað eru tiltölulega nýjar, en Hjördís segir að þær aðferðir sem hafa verið notaðar áður hafa oftar mælt áhrifin óbeint. Sem dæmi um slíkar aðferðir er huglægt mat kviðdóms í dómsmálum í Bandaríkjunum.
ConCIV notast hins vegar við tölfræðilegt mat þar sem reynt er að áætla hversu mikla tekjuaukningu þolendur ofbeldis þyrftu til að bæta fyrir það velferðartap sem þeir verða fyrir. Nú þegar hefur hópurinn birt rannsóknir um neikvætt virði svenfleysis og áfengisneyslu, en þær rannsóknir, ásamt fleirum má nálgast á heimasíðu ConCIV.
Niðurstöður ConCIV af óáþreifanlegum kostnaði ofbeldis benti til þess að hann næmi að meðaltali 6 milljónum króna á ári vegna andlegs ofbeldis, 3 milljónir króna á ári vegna kynferðislegs ofbeldis og 1,5 milljónir króna á ári vegna líkamlegs ofbeldis.
Þættirnir Ekon eru styrktir af Háskóla Íslands, sem styður vísindamenn til virkrar þátttöku í samfélaginu í krafti rannsókna þess og sérþekkingar.