Óðinn Jónsson, fyrrverandi fréttastjóri á fréttastofu RÚV, hættir sem umsjónarmaður Morgunútgáfunnar, sem hefur verið send út á samtengdum rásum Rásar 1 og 2 undanfarin misseri, og byrjar með nýjan morgunþátt á Rás 1 í haust.
Nýi þátturinn verður sendur út á sama tíma og Morgunútgáfan, og því verður samhliða útsendingum þáttarins á Rás 1 og 2 hætt, og hann færður aftur í sitt gamla horf þegar hann hét Morgunútvarpið. Þátturinn hans Óðins hefur enn ekki hlotið nafn, en hann verður að hluta fréttatengdur. Þá mun Bogi Ágústsson, fréttamaðurinn góðkunni, hætta vikulegum heimsóknum í Morgunútgáfuna og færa sig um set yfir á Rás 1 og fara vikulega yfir heimsfréttirnar í nýja morgunþættinum á Rás 1.
Guðrún Sóley Gestsdóttir, sem er einn umsjónarmanna Morgunútgáfunnar í dag, hefur verið boðið að sjá um þáttinn áfram á Rás 2 í breyttri mynd, sem hún hefur þegið. Þá mun Hrafnhildur Halldórsdóttir, þriðji umsjónarmaður Morgunútgáfunnar, hverfa til annarra starfa hjá Rás 2 í haust þegar áðurnefndar breytingar á morgundagskrá Rás 1 og 2 taka gildi.
Frank Þórir Hall, dagskrárstjóri Rásar 2, segir í samtali við Kjarnann að tilkynnt verði um fleiri umsjónarmenn að Morgunútvarpinu innan tíðar, en unnið sé að því að manna stöðurnar.
Hann segir breytingarnar á morgundagskrá Rásar 2, ekki til marks um að Morgunútgáfan hafi ekki staðið undir væntingum. „Við erum auðvitað ætíð að horfa til þess hvernig við getum bætt dagskrána og þessar hrókeringar eru hluti af þeirri vinnu. Í fyrra var ákveðið að hafa samtengdan morgunþátt í vetur en nú erum við að gera nokkrar breytinagr fyrir næsta starfsár og þessar hrókeringar eru hluti af þeim breytingum. Okkur fannst eðlilegra að breyta þessu aftur, og leyfa rásunum að hafa sitt eigið líf.“
Aðspurður um hvort hlustunin á Morgunútgáfuna hafi valdið vonbrigðum, segir Frank svo ekki vera. „Hlustunin er ekki ástæða þess að við ráðumst í þessar breytingar. Svona aukum við þjónustuna á ný, í stað þess að draga úr henni. Nú hefur fólk val,“ segir Frank Þórir Hall dagskrárstjóri Rásar 2 í samtali við Kjarnann.