Vilji fólk greiða sem minnst fyrir flugfargjöld, þá er að meðaltali ódýrast að kaupa flugmiða 47 dögum fyrir brottför, samkvæmt greiningu ferðaleitarvélarinnar CheapAir.com á nærri fimm milljónum flugferða árið 2014. Árið áður var best að kaupa flugmiða 54 dögum fyrir brottför.
CheapAir kannaði verðbreytingar á flugfargjöldum allt að 320 dögum fyrir brottför. Í flestum tilfellum bókuðu kaupendur flug einum til fjórum mánuðum fyrir ferðina. Hvað einstaka vikudaga varðar þá er ódýrast að fljúga á þriðjudögum og miðvikudögum en dýrast á sunnudögum og föstudögum.
Mun ódýrara ef keypt er á réttum tíma
Fjallað er um greiningu CheapAir á vefsíðu CNN. Haft er eftir forstjóra félagsins að þótt allir vilji fá nákvæmt svar við því hvenær best sé að bóka miða, þá sé málið ekki svo einfalt. Ótalmargt hafi áhrif á verð flugmiða, eins og árstími, áfangastaður og viðburðir.
Greingin sýnir þó fram á að sé flugmiði keyptur á lægsta mögulega verði, þá nemur sparnaðurinn að meðaltali 201 dollara, jafnvirði um 26 þúsund króna. Er þá ekki litið til miðaverðs tveimur vikur fyrir brottför, en þá er verð jafnan í hæstu hæðum.
Ekki kaupa of seint né of snemma
Þessar upplýsingar hjálpa kaupendum lítið við það að ákveða hvenær nákvæmlega best er að kaupa flugmiða – að öðru leyti en að meðaltali sé það best 47 dögum fyrir brottför.
Í það minnsta er víst að ekki borgar sig að kaupa flugmiða stuttu fyrir ferðalagið. Miðaverð innan við tveimur vikum fyrir brottför er að jafnaði 15 þúsund krónum dýrara en annars og á síðustu sjö dögum fyrir brottför er verðið að jafnaði 23 þúsund krónum dýrara en það var með lengri fyrirvara.
Þá borgar sig heldur ekki að kaupa miðann of snemma. Þegar flugmiðar eru fyrst settir í sölu þá eru þeir um 50 dollurum hærri en lægsta verð. Raunar breytist „lægsta gjald“ að meðaltali um 70 sinnum frá því því að flugfélög hefja sölu. Ástæðan fyrir tíðum breytingum á lægsta verði er einkum taktík flugfélaganna að lækka verðið tímabundið til þess að selja fleiri sæti.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 19. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.