Vinnuhópur á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD gagnrýnir íslensk stjórnvöld fyrir seinagang við innleiðingu samnings um báráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum. Morgunblaðið greinir frá málinu.
Samkvæmt frétt blaðsins fá íslensk stjórnvöld frest fram í október til að skila skýrslu um innleiðingu ábendinga vinnuhópsins, sem eru alls sautján talsins. Aðeins tvær þeirra hafa verið innleiddar, og það var árið 2012.
Í skriflegu svari innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins segir að ýmsar ástæður séu fyrir því að innleiðing samningsins sé ekki lengra komin. Ástæðan sé þó einkum sú að ekki hafi verið hægt að leggja nægilegt fé og mannafla til þess að sinna verkefninu sökum efnahagsástandsins á Íslandi. Þess vegna hafi verkefnið ekki verið í forgangi.
Samkvæmt svari ráðuneytisins sendi það OECD upplýsingar í síðasta mánuði um hvernig brugðist verði við tilmælum stofnunarinnar. Vinnuhópur stofnunarinnar taldi svörin ófullnægjandi og gaf í kjölfarið út áðurnefnda yfirlýsingu þar sem Ísland er hvatt til að innleiða að fullu tilmæli OECD fyrir októberlok.