Framleiðnivandi er á Íslandi, draga þarf úr markaðshindrunum sem hamla nýsköpun og hæfni skortir á ýmsum sviðum atvinnulífsins, meðal annars vegna brottfalls úr framhaldsskólum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), sem kynnt var í dag.
Angel Gurría, framkvæmdastjóri stofnunarinnar, er staddur hér á landi og hélt blaðamannafund ásamt Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra í dag. Hann sagði efnahagsbatann eftirtektarverðan og viðsnúninginn meiri og hraðari en annars staðar í Evrópu. „Við teljum horfur almennt góðar, en hins vegar er ljóst að ekkert má gefa eftir. Ísland stendur enn frammi fyrir þeim áskorunum að tryggja sjálfbæran hagvöxt, sér í lagi að styrkja undirstöður efnahagslegs stöðugleika, festa í sessi árangurinn í ríkisfjármálum og efla framleiðnivöxt,“ sagði hann um skýrsluna.
Í skýrslunni kemur fram að launahækkanir í nýjum kjarasamningum krefjist aðhalds í peningamálum, sem muni draga úr hagvexti. Sömuleiðis geti kjarasamningarnir haft neikvæð áhrif á sjálfbærni í ríkisfjármálum til lengri tíma. Þá hvetur OECD til varfærni við losun hafta og vill að tekjur sem fást af losuninni verði notaðar til lækka skuldir.
Þá bendir OECD á að áhætta felist í lífeyrisskuldbindingum hins opinbera og vanda Íbúðalánasjóðs. Stofnunin vill að Íbúðalánasjóður verði lagður niður.
Skýrslu OECD má finna á vefsíðu stofnunarinnar og úrdrátt á vefsíðu fjármálaráðuneytisins.