Skipulagsráð Kópavogsbæjar samþykkti á fundi sínum síðasta mánudag að vinnslutillaga að skipulagi á svokölluðum reit 13 á þróunarsvæði á Kársnesi, sem nær til lóða við Bakkabraut 2 og 4, Bryggjuvör 1-3 og Þinghólsbraut 77 og 79, auk framkominna athugasemda frá íbúum, verði grundvöllur að áframhaldandi vinnu við gerð deiliskipulagstillögu fyrir reitinn.
Vinnslutillagan, sem unnin var af Atelier arkitektum fyrir hönd lóðarhafa og kynnt fyrir íbúum í febrúarmánuði, felur í sér að allt að 160 íbúðir verði byggðar á þessum reit í húsum sem verði 2-5 hæðir. Byggingarmagnið á svæðinu er áætlað alls 26.765 fermetrar ofan- og neðanjarðar. Gert er ráð fyrir 0,75-1 bílastæði á hverja íbúð og að um 90 prósent bílastæðanna verði neðanjarðar.
Tveir fulltrúar af sjö töldu rétt að staldra við
Ekki var einhugur í skipulagsráðinu um framhaldið tilögunnar, en atkvæði féllu 5-2. Í bókun formanns skipulagsráðsins, Helgu Hauksdóttur bæjarfulltrúa Framsóknar, sagði að mikilvægt væri að tillagan yrði þróuð á þann hátt að ríkt tillit yrði tekið til framkominna athugasemda sem snerust um „of mikið byggingarmagn, lækkun hæða, útsýnisskerðingu og skuggamyndun“ og að leggja þyrfti áherslu á góð almannarými, ekki síst við strandlengjuna.
Bergljót Kristinsdóttir fulltrúi Samfylkingar í ráðinu greiddi atkvæði með tillögunni en óskaði eftir því að gert yrði „físískt“ þrívíddamódel og haft til sýnis fyrir almenning þegar tillaga um deiiskipulag yrði tilbúin. „Slík módel henta mjög vel til að gera sér grein fyrir raunútliti byggingarreits," sagði í bókun Bergljótar.
Bæjarfulltrúarnir tveir sem greiddu atkvæði gegn því að áfram yrði unnið með tillöguna á þessu stigi máls voru þau Sigurbjörg Erla Egilsdóttir fulltrúi Pírata og Einar Örn Þorvarðarson fulltrúi BF/Viðreisnar. Þau sögðu íbúa kalla eftir meira samráði um skipulagið.
„Meðal annars er óskað eftir kynningu á fyrirhugaðri uppbyggingu og heildarbyggingarmagni á stærra svæði Kársness, auk stefnu um hönnun og arkitektúr á svæðinu,“ segir í bókun Sigurbjargar og Einars og bent á að samþykkt skipulagslýsing reitisins geri ráð fyrir 18.700 fm byggingarmagni á reitnum en vinnslutillagan fjalli um tæplega 43 prósent aukingu.
„Af þessum sökum telja undirrituð mikilvægt að staldra við og fara í meira samráð við íbúa og hagsmunaaðila á svæðinu áður en lengra er haldið," segja þau Sigurbjörg og Einar.
Tillagan gagnrýnd af fjölda íbúa
Alls 101 athugasemd eða ábending barst til Kópavogsbæjar vegna þessarar vinnslutillögu og voru umsagnirnar frá íbúum og öðrum hagsmunaaðilum af ýmsum meiði. Í þeim má finna allt frá eindreginni mótstöðu yfir í stuðning við tillöguna og reyndar jafnvel gagnrýni þess efnis að ekki væri nægilega langt í tillögunni gengið hvað varðar byggingarmagn og þéttleika íbúða.
„Ég mótmæli því að svona mörg hús verði byggð á svæði 13,“ sagði einn nágranni reitsins en annar sagði að ef einhversstaðar ætti að þétta byggð væri það „einmitt á þessu svæði vegna fyrirsjáanlegra fjárfestinga í samgönguinnviðum á svæðinu“ en reiturinn liggur í grennd við legu fyrirhugaða legu Borgarlínu um Kársnesið.
Það er þó óhætt að segja að fleiri athugasemdir hafi verið neikvæðar en jákvæðar, en margar þeirra neikvæðu voru samhljóða eða svo gott sem samhljóða.
Í þeirri umsögn sem margir sendu inn segir meðal annars að byggðin sem teiknuð hafi verið upp sé allt of þétt og há, útsýnisskerðing og skuggamyndun sé „langt umfram þau mörk sem eru boðleg íbúum“, nýtingarhlutfall reitsins sé „úr öllu samhengi við aðliggjandi byggð“ og að þröngar íbúagötur, t.d. Þinghólsbraut og Sunnubraut, anni illa núverandi bílaumferð og geti „síst tekið við meiri umferð án aukinnar slysahættu“. Þá segir einnig að útsýni til sjávar hverfi „úr öllum áttum og aðgengi að sjó skerðist þannig að ekki verður við unað.“
„Allt það sem er forsenda bíllaus lífsstíls og mannlífs skortir í hverfinu, hverfisverslun, leikskóli, skóli, dægradvöl fyrir unga sem aldna, veitingahús, kaffihús, útivist og frístund. Samgöngumál eru nú þegar í uppnámi, ekki síst fyrir hjólandi og gangandi umferð sem á samkvæmt tillögum að aukast. Nú þegar er skortur á bílastæðum,“ segir í þessari sömu athugasemd.
Of fáar íbúðir, segir fasteignasali
Ekki voru þó allir á því máli að tillagan gerði ráð fyrir of mikilli byggð eða of þéttri. „Það kemur mér í raun á óvart hvað verið er að byggja lítið af íbúðum á þessum flotta reit á einum besta stað í Kópavogi. Þarna hefði auðveldlega verið hægt að koma fyrir fleiri íbúðum og það er ekki endilega vilji Kópavogsbúa sem þarna vilja búa að einungis sé verið að taka tillit til nokkurra einbýlishúsa í nágrenninu og hanna hverfið í kringum þeirra þarfir. Það þarf líka að hlusta á alla aðra sem langar að flytja á þennan flotta stað í Kópavogi við sjóinn þar sem er mikil veðursæld og flott útsýni nálægt útivistarperlum,“ segir í athugasemd sem íbúi í Kópavogi, sem starfar sem fasteignasali, sendi inn.
Fasteignasali þessi sagðist þykjast hafa vissu fyrir því að eftirspurn eftir íbúðum á þessum svæði yrði mikil. „Ég er búinn að sýna þessa tillögu mörgum af mínum viðskiptavinum sem eru mjög hrifnir af tillögunni og hafa sýnt því áhuga að búa þarna þegar þessar íbúðir verða byggðar,“ segir í umsögn hans.
Lóðarhafi segir kominn tíma til að standa við heildarmyndina af Kársnesinu
Einar Steindórsson, framkvæmdastjóri Vinabyggðar ehf., sem er einn lóðarhafa á reit 13, leggur orð í belg með bréfi til skipulagsyfirvalda. Hann segist hafa fylgst með opnum kynningarfundi bæjaryfirvalda í Kópavogi í febrúar og segir það sitt mat að stærstur hluti þeirrar gagnrýni sem þar var fram sett hafi ekki beinst að vinnslutillögunni sem slíkri, heldur sé afmarkaður hópur fólks óánægður með hvernig haldið hafi verið á skipulag á Kársnesi í víðara samhengi.
„Almenn skoðun þessa hóps er að ekki sé komið til móts við vilja og þarfir íbúa á Kárnesinu og að skortur sé á skipulagi og heildarsýn fyrir hverfið. Staðarkostir séu illa nýttir, þéttingarstefnan yfirgengileg og samráð við íbúa sé marklaust og blekkingarleikur skipulagsyfirvalda,“ skrifar Einar, en bætir svo við að það rétta sé að íbúar hafi fengið að taka þátt í að móta og undirbúa grunnforsendur fyrir skipulag á Kársnesinu. Reitur 13 sé í fullu samræmi við skipulagslýsingu sem unnin var með íbúum, hvort sem það varðaði fjölda íbúða eða byggingarmagn.
Einar segir að tilbúið bréf hafi verið sett inn á hóp íbúa á Kárnesi á Facebook og fólk hafi verið hvatt til að afrita það og senda inn til skipulagsyfirvalda að mótmæla vinnslutillögunni. „Það má leiða að líkum að þarna muni einhverjir íbúar senda bréf í blindni án neinnar skoðunar á tillögunni sjálfri og kostum hennar. Það er ekki vænlegt fyrir heiðarlega og markvissa umsögn,“ segir Einar, sem svo svarar nokkrum af þeim athugasemdum sem voru settar fram af íbúum í því skeyti sem margir sendu inn samhljóða.
Gagnrýni á hæð og þéttleika byggðarinnar svarar Einar með því að benda á að byggðin sé lágreist, á 2-3 hæðum á langstærstum hluta reitsins en hækki í fjórar hæðir með innfelldri fimmtu hæð nyrst á reitnum, upp við legu Borgarlínu. Einnig segist hann telja að útsýnisskerðing sé mjög lítil og að hönnuður hafi tekið mikið tillit til þeirra þátta.
„Það er auðvitað ekki rétt að útsýni til sjávar skerðist úr öllum áttum þó að útsýni takmarkist frá einstaka húsum,“ skrifar Einar einnig.
Hann segir þó umræðu um heildarmynd Kárnessins eiga rétt á sér, þó að fyrir vikið hafi ekki náðst að eiga sér stað markviss umræða um vinnslutillöguna.
Segir hann að töfin sem orðið hefur á deiliskipulagi reits 13 sé „með ólíkindum“ og að tillagan hafi fengið mikla og ítarlega kynningu ásamt því sem töluvert samráð hafi átt sér stað.
„Það er kominn tími á að skipulagsyfirvöld standi við þá heildarmynd af Kársnesinu sem hefur verið kynnt og setji umrædda tillögu í lögformlegt deiliskipulagsferli,“ skrifar Einar.
Og í slíkt ferli var tillögunni einmitt vísað, síðasta mánudag, sem áður segir.