Lítill hópur nemenda í grunnskóla í Malmö hefur undanfarna mánuði gengið svo hart fram að skólanum var lokað á föstudag. Kennsla hófst aftur í dag en ákveðið hefur verið að grípa til ýmissa aðgerða til að koma í veg fyrir hótanir og ofbeldi sem kennarar og nemendur segja að hafi fyrir löngu gengið allt of langt. Þessi frétt hefur verið áberandi í sænskum miðlum síðustu daga en hún ætti ekki að snúast eingöngu um lítinn hóp sem þrífst ekki innan ramma skólakerfisins. Saga Värner Rydénskolan fjallar ekki hvað síst um sparnað í skólakerfinu og skelfilegar ákvarðanir skólayfirvalda þrátt fyrir ítrekuð varúðarmerki.
Värner Rydénskolan er grunnskóli í Rosengård hverfinu í Malmö þar sem innflytjendur eru í miklum meirihluta. Hverfinu er stundum lýst sem gettói í fjölmiðlum en sú lýsing á varla við rök að styðjast. Blaðamaður Guardian sagði í grein árið 2010 að hann vissi ekki um neitt annað gettó með breiðum og vel merktum hjólastígum þar sem miðaldra konur hjóla heim til sín með innkaupapoka. Hins vegar má ekki gera lítið úr því að félagsleg vandamál eru algeng í hverfinu, atvinnuleysi mikið og menntunarstig lágt, enda er þetta oft fyrsta stopp innflytjenda við komuna til Svíþjóðar.
Frá því að vera bestur yfir í að vera verstur
Skólinn umræddi var í mörg ár besti grunnskóli hverfisins og í kringum meðaltal þegar allir grunnskólar í Malmö voru skoðaðir. Ástæðan var sú að upptökusvæði skólans var stórt og nemendur komu gjarnan úr fjölskyldum sem höfðu skapað sér líf í Svíþjóð, hlotið menntun og voru með vinnu. Ef til vill var það þess vegna sem skólayfirvöld ákváðu að fella aðra grunnskóla inn í þann sem talinn var bestur.
Frá árinu 2011 hefur verið stöðug krafa um niðurskurð hjá grunnskólunum í Rosengård, þrátt fyrir að þar væru nemendur sem einna líklegastir væru til að lenda utangarðs vegna lítils félagslegs stuðnings. Í desember árið 2012 var nokkrum kennurum sagt upp í Värner Rydénskolan og þremur níundu bekkjum slegið saman í tvo. Í janúar árið 2013 er lögð sparnaðarkrafa upp á 2,5 milljónir sænskar á skólann og í heild eiga grunnskólar í Rosengård að spara átta milljónir sænskar.
Sænska knattspyrnugoðsögnin Zlatan Ibrahimovic ólst upp í Rosengård hverfinu í Malmö. Hér leikur hann fótbolta við börn úr hverfinu, við formlega vígslu á fótboltavelli í hverfinu sem Zlatan lék sér á þegar hann var barn.
Á sama tíma kemur í ljós að einkunnir nemenda hafa versnað mikið og innan við 40 prósent ná lágmarkseinkunn til að komast í menntaskóla. Í ágúst sama ár eru þrír grunnskólar sameinaðir og í kjölfarið berast fréttir af auknu ofbeldi, verri hegðun og aðstæðum sem ekki er hægt að bjóða nemendum eða kennurum upp á. Vorið 2014 birtast fréttir í sænskum miðlum þar sem rektor skólans lýsir erfiðleikum í kjölfarið á sameiningunni og þar kemur jafnframt fram að skólinn er orðinn versti skóli Malmö þegar litið er á einkunnir. Á tímabili í fyrra hringdu átján kennarar sig inn veika og það gerist margoft að ekki er hægt að fá afleysingarkennara.
Lítill hópur sem skemmir fyrir öllum
Hópurinn sem hefur haft sig mest frammi í skólanum er ekki stór. Þarna er um að ræða um það bil tíu drengi sem virðast ekki þrífast innan ramma hins hefðbundna skólakerfis og svo kannski tíu fylgjendur. Fréttir hafa borist af eitulyfjasölu á skólalóðinni og í febrúar var fjallað um tvo menn sem hefðu farið inn í grunnskóla í Malmö og sagst tengjast Isis samtökunum. Ekki var tekið fram hvaða skóli þetta hefði verið en að öllum líkum var þetta Värner Rydénskolan.
Eftir fundarhöld gærdagsins hefur verið ákveðið að grípa til ýmissa ráðstafanna til að ná utan um ástandið í skólanum. Í grunninn snúast þær um fjölgun starfsfólks og stjórnenda til þess að ná betur utan um starfsemina. Rætt hefur verið að flytja nokkra nemendur í aðra skóla til að brjóta upp hópinn auk þess sem rætt verður við nemendur og foreldra og þeir beðnir um tillögur að úrbótum.
Breyta þarf grunnskólakerfinu í Svíþjóð
Stóra spurningin er hins vegar hvers vegna þetta hafi ekki gerst fyrir löngu. Eða öllu heldur, miðað við söguna og varnaðarorð mátti alltaf gera ráð fyrir að sparnaður kæmi einna harðast niður á þessum skólum. Gustav Fridolin, menntamálaráðherra Svíþjóðar, segir að ástandið sé að hluta til vegna þess kerfis sem Svíar hafa byggt upp. Foreldrar hafa val um það í hvaða skóla þeir senda barnið sitt, en á móti kemur að skólarnir geta einnig valið nemendur inn í skólana ef umsóknir eru of margar. Þetta hefur þýtt að sumir skólar dragast aftur úr sem aftur skapar vítahring þar sem nemendur sem eru betur staddir félagslega geta ekki hugsað sér að stunda nám í þeim. Samkvæmt OECD er Svíþjóð eina landið í heiminum sem er með fullt frelsi þegar kemur að því að velja skóla, án þess að grípa til sérstakra ráðstafana til að koma í veg fyrir að sumir skólar dragist aftur úr.
Gustav Fridolin, menntamálaráðherra Svíþjóðar (til vinstri), ásamt Stefan Lofven forsætisráðherra Svía.
Umræðan um Värner Rydénskolan hefur því hraðað umræðunni um breytingar á skólakerfinu í Svíþjóð og aukna aðkomu ríkisins á kostnað sjálfstæðis sveitarfélaga. Skoða á þær aðferðir sem notaðar eru í skólum sem taldir eru standa sig best og freista þess að yfirfæra þær á þá skóla sem standa sig verst. Tilhneyginging hefur verið sú að framlag til nemenda og skóla eigi að vera jöfn. Staðreyndin er hins vegar sú að ákveðnir skólar þurfa fleiri kennara og jafnvel hærri laun þar sem að meirihluti nemenda kemur úr erfiðum félagslegum aðstæðum og talar ekki tungumálið við upphaf náms. Skipulag grunnskólakerfisins kemur því beint að umræðum um innflytjendur í Svíþjóð, móttöku þeirra og þá aðstoð sem þeir fá við að aðlagast samfélaginu.
Fridolin, åk till Wärner Ryden skolan i Malmö. du skulle ju fixa skolan. Denna stängdes idag på grund av osäkert för lärare o elever
— Drevharen (@DrevHaren) March 1, 2015