Margir, að bakaradrengnum kannski undanskildum, kunna piparkökusönginn úr Dýrunum í Hálsaskógi, og um leið líka uppskriftina þar sem meðal annars er notað eitt kíló margarín. Ef bakarameistarinn og bakaradrengurinn þyrftu að bregða sér í búð hér í Danmörku til að kaupa í baksturinn myndu þeir líklega klóra sér í kollinum þegar kæmi að margaríninu. Í hillum danskra verslana, eins reyndar í öðrum ESB ríkjum, má margarín nefnilega ekki heita margarín lengur nema fituinnihald sé minnst 80 prósent og mest 90 prósent. Þetta uppfyllir það sem almennt er kallað margarín ekki.
Margarínið, eða smjörlíkið eins og við köllum það, á sér annars merkilega sögu. Franskur efnafræðingur, Hippolyte Megé-Mouriés, hafði fundið það upp, að skipan Napóleons III árið 1869, átti að koma í staðinn fyrir smjör (sem var dýrt) handa hernum. Margarínið kom á markaðinn í Danmörku 1883, Danir tóku því fagnandi og urðu á skömmum tíma sú þjóð veraldar sem hesthúsaði mestu af þessari nýjung. Danska margarínið samanstóð einkum af hvallýsi og nautatólg. Læknar og næringarfræðingar mæltu með margaríninu, það var orkuríkt og ódýrt. Næringarskortur var algengur og þarna voru í boði ódýrar hitaeiningar. Margarínneysla Dana minnkaði á árum síðari heimsstyrjaldar en jókst svo hratt eftir að stríðinu lauk.
Svo komu næringarfræðingarnir
Á sjötta áratugnum fóru að koma fram efasemdir um margarínið. Næringarfræðingar fara að tala um transfitusýrur, óholla fitu og næringarlausar hitaeiningar. Það var líka á þessum tíma að næringarskorturinn hvarf og annað vandamál kom í hans stað: of margar hitaeiningar og með þeim of mörg kíló. Frá árinu 1960 hefur margarínneysla Dana farið minnkandi ár frá ári þrátt fyrir að komið hafi á markaðinn alls kyns vítamínbætt plöntumargarín sem næringarfræðingar töldu mun hollara og ekki jafn ríkt af hitaeiningum. Nýleg könnun sýndi að Danir sem eru eldri en 55 ára borða tvisvar sinnum meira margarín en þeir sem eru yngri en 35 ára. Íbúar Kaupmannahafnarsvæðisins og Austur-Jótlands nota minnst margarín.
Margarínreglugerð ESB
Árið 2007 setti Evrópusambandið reglugerð um margarín og samkvæmt henni, eins og áður var sagt, uppfyllir það sem fyrrum var kallað margarín ekki kröfurnar um fituinnihald. Í dönskum verslunum eru ennþá í hillunum stykki, sem eru alveg eins og gömlu margarínstykkin, munurinn er bara sá að orðið margarín (margarine) er bannorð. Þess vegna stendur á sumum stykkjunum STEGE.. og á öðrum BAGE.. og kaupendur verða sjálfir að geta sér til um innihaldið. Neyslan á margaríni hefur dregist saman um helming á undanförnum 20 árum og minnkar stöðugt. Plöntuolía og smjör hefur komið í staðinn og ekki er útlit fyrir að margarínið eigi eftir að fá „comeback.“
ESB reglugerðin bannar ekki margarín í söngtextum. Það geta þeir huggað sig við bakarameistarinn og bakaradrengurinn í Hálsaskógi hvað sem þeir setja svo í piparkökurnar.