Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi ráðherra, telur að leggja eigi allt að sjötíu prósenta útgönguskatt á kröfuhafa föllnu bankanna, ætli þeir með hlut sinn úr landi. Ögmundur lýsir afstöðu sinni í færslu á vefsíðu sinni, undir fyrirsögninni: „Við eða hrægammarnir?“
Þar vitnar þingmaðurinn til nýlegra frétta af því að vogunarsjóður í eigu George Soros, sem hagnaðist gríðarlega árið 1992 með því að fella breska pundið, hafi eignast kröfur í þrotabú Glitnis. Ögmundur segir sjóðinn hafa keypt köfur upp á 44 milljarða króna á genginu 27 til 29 prósent af nafnvirði, sem þýði að sjóðurinn hafi varið 13 milljörðum til kaupanna og vonist til að græða allt að þrjátíu milljarða króna á viðskiptunum.
„Til eru þeir - og er ég í þeim hópi - sem þykir þetta vera eignaupptaka á kostnað íslensks samfélags sem hefur fengið að blæða illilega vegna hrunsins. Þessi síðustu brask-kaup nema þó mun hærra hlutfalli af nafnvirði en fyrri kaup sem fóru að sögn niður í 4% af nafnvirði. Þeir sem þá keyptu gerðu það í von um að ganga út með 96% í eigin vasa. Ekki gátu þeir vitað að það yrði svo gott en vogun vinnur vogun tapar. Þeir heita ekki vogunarsjóðir fyrir ekki neitt.„
Þá gefur Ögmundur lítið fyrir málflutning þeirra sem talað hafa fyrir hófsamri skattlagningu á kröfuhafa föllnu bankanna. „Hrægammasjóðir eru náttúrlega miklu betra nafn á þennan hóp en vogunarsjóðir því þeir sérhæfa sig í að flögra yfir fyrirtækjum og samfélögum sem lent hafa í skipbroti. Að tala um eignaupptöku hjá hrægömmum -einsog heyrst hefur- þegar komið er í veg fyrir að þeir gangi út með ránsfeng sinn er náttúrlega eins og hvert annað grín.
Skattlagningartölurnar sem stjórnvöld ættu að vera að tala um - og þar með kröfur þess aðila sem mest hefur verið hlunnfarinn, íslensks samfélags - ættu að lágmarki að liggja í 60-70% ef þá ekki hærri.
Eða hvers vegna ættu þeir allra séðustu sem keyptu kröfur á 4% af nafnvirði að geta gengið út með fullar endurheimtur? En jafnvel þótt þeir fengju aðeins brotabrot af nafnvirði fjárfestingarinnar væri gróði þeirra eftir sem áður gríðarlegur. Sá sem kaupir á 4% af nafnvirði en selur á 27% og þyrfti síðan að greiða 70% skatt græðir 100% - tvöfaldar með öðrum orðum fjárfestingu sína,“ skrifar Ögmundur á vefsíðu sína.