Um 300 þungvopnaðir hermenn eru nú komnir á göturnar í Brussel og víðar í Belgíu, vegna gruns um að íslamskir hryðjuverkamenn ætli að láta til skarar skríða í landinu. Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá þessu, og vitnar til tilkynningar frá Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, þess efnis að hermenn muni gæta öryggis á meðan ógn er talin vera fyrir hendi.
Lögreglusveitir víða í Evrópu standa í umfangsmestu samræmdu lögregluaðgerðum sem gripið hefur verið til í álfunni í langan tíma, með það að markmiði að koma í veg fyrir frekari árásir íslamskra hryðjuverkamanna. Sautján létu lífið í árásum á ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo í París og Kosher Grocery markaðinn, auk árásarmannanna þriggja.
Í Belgíu hafa þrettán verið handteknir og tveir skotnir til bana, í Frakklandi hafa tólf verið handteknir og í Þýskalandi eru í gangi aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir árásir. Tveir hafa verið handteknir og húsleitir framkvæmdar á ellefu stöðum.
Samkvæmt fréttum breska ríkisútvarpsins BBC hafa fimm af þeim þrettán sem handtekin voru í Belgíu gær, þegar verið ákærð fyrir að aðstoða mennina tvo sem voru skotnir eftir þeir hófu skothríð á lögreglu við undirbúning árása á lögreglumenn og lögreglustöðvar í Belgíu.
Mikill viðbúnaður er í álfunni og eru vopnaðir lögreglumenn víða, einkum á opinberum stöðum.