Sérstakar varnir á vegum hermanna eru nú við byggingar gyðingasamfélagsins í Belgíu, einkum í Brussel, að því er Wall Street Journal greinir frá. Um 300 hermenn eru á götum úti, einkum í Brussel, eftir að forsætisráðherra Belgíu, Charles Michel, hækkaði viðbúnaðarstig í landinu vegna ógnar frá íslömskum hryðjuverkasamtökum. Þungvopnaðir hermenn eru nú við byggingar Evrópusambandsins og NATO í Brussel.
Jusqu’à 300 militaires seront progressivement déployés à partir de ce samedi matin : http://t.co/cILfAN0z5D
— Charles Michel (@CharlesMichel) January 17, 2015
Lögreglusveitir víða í Evrópu standa enn í umfangsmestu samræmdu lögregluaðgerðum sem gripið hefur verið til í álfunni í langan tíma, með það að markmiði að koma í veg fyrir frekari árásir íslamskra hryðjuverkamanna.
Í Belgíu hafa þrettán verið handteknir og tveir skotnir til bana í borginni Vervier, í Frakklandi hafa tólf verið handteknir og í Þýskalandi eru í gangi aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir árásir. Tveir hafa verið handteknir og húsleitir framkvæmdar á að minnsta kosti ellefu stöðum. Þá hefur viðbúnaðarstig við opinber svæði og byggingar verið hækkað, og eru vopnaðir lögreglumenn víða í eftirlitsstörfum.
Samkvæmt fréttum breska ríkisútvarpsins BBC hafa fimm af þeim þrettán sem handtekin voru í Belgíu gær, þegar verið ákærð fyrir að aðstoða mennina tvo sem voru skotnir eftir þeir hófu skothríð á lögreglu við undirbúning árása á lögreglumenn og lögreglustöðvar í Belgíu.
Mikill viðbúnaður er í álfunni og eru vopnaðir lögreglumenn víða, einkum á opinberum stöðum.