Hagfræðingar Landsbankans gerðu það að umtalsefni í gær, í hagsjá sinni, hvernig leiguverð hefur þróast undanfarin ár. Það er mat þeirra að það sé óhagstætt að leigja í Reykjavík, þessi misserin, og hafi raunar verið þannig oftast nær, sé sagan skoðuð.
Það kemur líklega ekki mörgum á óvart. Í hagsjánni kemur fram að mikill munur sé á Reykjavík og öðrum borgum á Norðurlöndunum þegar kemur að mismun á leigu og kaupum. Þannig kosti íbúð í Reykjavík um þrettán falda árlega leigu, á meðan íbúð í Stokkhólmi í Svíþjóð er á fjörtíufalda árlega leigu.
Allt á þetta sér vafalítið eðlilegar skýringar. Ein er sú að innviðir á leigumarkaði hér á landi eru frekar veiki, og þær 1.800 íbúðir sem eru leigðar út í gegnum Airbnb, einkum miðsvæðis, hafa einnig áhrif á jafn lítinn markað og þann sem er á höfuðborgarsvæðinu.
Stjórnvöld, og þá einkum Eygló Harðardóttir, ráðherra húsnæðis- og félagsmála, hafa boðað stórfellda uppbyggingu leiguíbúða og breytingar á húsnæðiskerfinu. Það verður spennandi að sjá hvort þessi mál muni ná fram að ganga, og þá einnig hvert lokatakmark þessara breytinga á að vera.