Fjármála- og efnahagsráðuneyti Bjarna Benediktssonar hefur umsjón með vinnu sem miðar að því að banna verðtryggð lán til neytenda með jöfnum greiðslum, til lengri tíma en 25 ára. Þá hefur ríkisstjórnin hug á því að lengja lágmarkstíma nýrra verðtryggðra neytendalán í allt að 10 ár og að takmarkanir verði gerðar á veðsetningu vegna verðtryggrða lána. Þá er einnig stefnt að því að auka kerfislæga hvata til töku á óverðtryggðum lánum frekar en verðtryggðum.
Þetta kemur fram í svari Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar forsætisráðherra við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, sem birt var á vef Alþingis rétt í þessu. Hún beindi meðal annars þeirri spurningu til Sigmundar Davíðs, hvenær áformað væri að afnema verðtryggingu á neytendalánum að fullu. Í svarinu kemur fram að unnið verði að því í skrefum að draga úr vægi verðtryggingarinnar á lánamarkaði, en verkefnið heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneyti, og velferðarráðuneyti Eyglóar Harðardóttur einnig.
Spurningar Sigríðar Ingibjargar og svör Sigmundar Davíðs má sjá hér að neðan.
1. Hvað líður áformum og aðgerðum um afnám verðtryggingar á neytendalánum?
Unnið er eftir áætlun sem samþykkt var í ríkisstjórn 9. maí 2014. Áætlunin byggist á niðurstöðum sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum. Áætlunin um næstu skref í aðgerðum er í fjórum liðum:
a. Fjármála- og efnahagsráðuneytið mun hafa umsjón með vinnu við að óheimilt verði að bjóða neytendum verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára, að lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána verði lengdur í allt að 10 ár og að takmarkanir verði gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána.
Í þingmálaskrá er gert ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á lögum um vexti og verðtryggingu á vorþingi.
b. Velferðarráðuneytið mun hafa umsjón, í framhaldi af skýrslu verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála, með aðgerðum til að auka hvata til töku og veitingar óverðtryggðra lána.
Hugað er að aðgerðum til að auka hvata til töku og veitingar óverðtryggðra lána í tengslum við viðamiklar breytingar á framtíðarskipan húsnæðismála.
c. Forsætisráðuneytið mun skipa starfshóp um leiðir til að sporna gegn því að sjálfvirkar hækkanir á vöru og þjónustu og tenging ýmissa skammtímasamninga við vísitölu neysluverðs kyndi undir verðbólgu.
Starfshópurinn var skipaður í júlí 2014. Gert er ráð fyrir að hann muni skila af sér á næstu vikum.
d. Ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna mun skipa Verðtryggingarvakt til að tryggja samfellu í framgangi áætlunar um afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum.
2. Hvenær er áætlað að verðtrygging á neytendalánum verði afnumin að fullu?
Meirihluti sérfræðihóps um afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum lagði til að vinna við áætlun um fullt afnám yrði hafin eigi síðar en á árinu 2016 þegar reynsla yrði komin á þær breytingar sem hópurinn taldi að gera ætti í fyrsta áfanga. Breytingar í fyrsta áfanga felast í að:
a. óheimilt verði að bjóða neytendum verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára,
b. lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána verði lengdur í allt að 10 ár,
c. takmarkanir verði gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána og
d. hvatar auknir til töku og veitingar óverðtryggðra lána.