Það kostar að lágmarki um 220 þúsund krónur að öðlast almenn ökuréttindi. Sá kostnaður felur í sér fimmtán tíma af akstri með ökukennara, bóklegt og verklegt ökupróf, þrjú námskeið í ökuskóla auk kostnaðar við að fá fyrsta ökuskírteinið hjá sýslumanni.
Morgunblaðið fjallar um ferlið í dag og þann kostnað sem fylgir því að fá bílpróf. Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu hefur þeim ungmennum fækkað sem taka ökuprófið strax við 17 ára aldur. Um 70 prósent af árgangi taka bílprófið í dag, samanborið við 85 prósent um aldamótin.
Í umfjöllun blaðsins er kostnaðurinn við bílprófið sundurliðaður með þessum hætti:
-Kostnaður við bóklega hlutann, það eru tvö námskeið í ökuskóla, er sitt hvorum megin við 30 þúsund krónur. Verðið getur verið misjafnt milli ökuskóla.
-Námskeið þrjú, sem er síðasta námskeiðið og er bæði bóklegt og verklegt, kostar 36 þúsund krónur.
-Algengt tímaverð hjá ökukennurum er átta til ellefu þúsund krónur fyrir hvern ökutíma. Algengtasta verðið er sagt vera níu þúsund krónur. Lágmarksfjöldi ökutíma með ökukennara er fimmtán stundir, en algengt er að nemendur fari í 16 eða 17 tíma. Fimmtán tímar á verðinu 9000 krónur kosta alls 135 þúsund krónur.
-Ökuprófin sjálf hjá Frumherja kosta 12.100 krónur samtals. Verklega prófið kostar 8.900 krónur og bóklega prófið kostar 3.200 krónur
-Það kostar 3.300 krónur að fá útgefið ökuskírteini hjá sýslumanni.
Lágmarkskostnaður við bílprófið er því um 220 þúsund krónur.