Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs Ólafssonar, segir að eiginmaður sinn hafi verið dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti í Al Thani-málinu svokallaða á grundvelli misskilnings. Þetta kemur fram í grein sem hún ritar í Fréttablaðið í dag sem ber heitið „Al Thani dómurinn og niðurstaða Hæstaréttar“.
Í greininni segir að í upphafsforsendur dómsins vísi Hæstiréttir til símtals í gögnum málsins þar sem ítrekað komi fram að rætt hafi verið við „Óla“ um nákvæma útfærslu viðskiptanna. „Hæstiréttur fer mannavillt í rökstuðningi sínum og ályktar að hér sé átt við eiginmann minn, Ólaf Ólafsson, en hið rétta er að um er að ræða lögfræðing með sama fornafni sem er sérfræðingur í lögum um kauphallarviðskipti,“ segir Ingibjörg í grein sinni. Hún fullyrðir að bæði ákæruvaldið og héraðsdómur hafi áttað sig á því að umrætt símtal var ekki við Ólaf, eiginmann hennar.
Ingibjörg telur þennan misskilning vera grafalvarlegan þar sem Hæstiréttur dragi, að hennar mati, mjög víðtækar ályktanir af samtalinu strax í upphafi dóms síns.
Hún veltir einnig fyrir sér af hverju Al Thani-frændurnir tveir, sem málið er kennt við, voru ekki ákærðir. „Ef við gefum okkur að ákæran sé sannleikanum samkvæm, þá hljóta þessir menn að vera jafn sekir og aðrir er tengjast málinu.“ Kjarninn skrifaði fréttaskýringu um ástæður þess skömmu eftir að dómurinn féll.
Opinber umræða hafði úrslitaáhrif
Ingibjörg segir að Al Thani-málið hafi snemma lent í brennidepli umræðu sem hafi mótast af miklum tilfinningahita og reiði sem hafi komið í kjölfar bankahrunsins. Hún hafi hins vegar alltaf staðið í þeirri trú að „opinber umræða myndi ekki hafa úrslitaáhrif á faglega vinnu dómara Hæstaréttar. Ég trúði því og treysti að þeir stæðu fast á gildum réttarríkisins að viðlögðu drengskaparheiti sínu. Niðurstaða Hæstaréttar kom því sem reiðarslag og gengur gegn gögnum málsins.“
Ingibjörg segir dómara Hæstaréttar allt í senn hafa klæðst fötum rannsakenda, saksóknara og dómara í málinu. Það sé hins vegar nauðsynlegt að tjá sig, gagnrýna og segja skoðun sína, enda sé það einn af hornsteinum réttarríkisins. „Að mínu mati er þöggun um jafnmikilvægt málefni hættuleg samfélaginu, hættuleg leið til að komast upp með ofbeldi af verstu tegund.“
Fréttablaðið ræðir einnig í forsíðufrétt um greinina við lögmann Ólafs, Þórólf Jónsson. Hann segist ekki geta séð annað en að miðað við orðalag Hæstaréttar þá sé misskilningur að ræða varðandi hvaða „Óla“ sé verið að ræða við og að „úrslit málsins hefðu getað orðið önnur ef réttur skilningur hefði verið á.“ Um sé að ræða grundvallaratriði sem margt í málinu hvíli á. Næstu skref séu til skoðunar. Hægt sé að óska eftir endurupptöku á grundvelli misskilnings.
Ingibjörg segir að ákæruvaldið hafi vitað að um rangan Óla hafi verið að ræða. Ólafur Þór Hauksson er sérstakur saksóknari.
Aðstandendur fóru saman yfir dóminn
Ingibjörg skipulagði fund með aðstandendum sakborninga í málinu sem fram fór á Hilton hótelinu snemma í mars. Um 250 manns mættu á fundinn. Viðskiptablaðið greindi frá því á sínum tíma. Í umfjöllun blaðsins sagði að verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, Hörður Felix Harðarson, og verjandi Sigurðar Einarssonar, Ólafur Eiríksson, hafi tekið til máls á fundinum og farið yfir dóminn. Auk þess mætti Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrum hæstaréttardómari, á fundinn og lýsti skoðun sinni á dómnum.
Ólafur sagði sjálfur í samtali við Reuters fréttastofuna skömmu eftir að dómurinn féll að íslenskir stjórnmálamenn hafi gert bankageirann að blóraböggli fyrir þeirra eigin mistökum. „Ég held að dómararnir hafi fyrst ákveðið hver útkoman ætti að vera og svo skrifað dóminn“.
„Ísland er mjög lítil land…Veggirnir á milli stjórnmálamanna og embættismanna eru þunnir. Stjórnmálamennirnir ákváðu að setja allan fókus á bankageirann, en að rannsaka ekki það sem aflaga fór í efnahagskerfinu, sem er á þeirra ábyrgð“.
Ingibjörg veltir fyrir sér í grein sinni af hverju Al Thani-frændurnir voru ekki ákærðir.
Alvarlegustu efnahagsbrot Íslandssögunnar
Dómur féll í Al Thani-málinu þann 12. febrúar síðastliðinn. Þar voru þeir Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, sem átti tæplega tíu prósent hlut í Kaupþingi fyrir fall hans, voru allir dæmdir sekir. Hreiðar Már fékk fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður fjögur ár, Ólafur og Magnús fjögur og hálft ár.
Al-Thani málið, sem er eitt umfangsmesta efnahagsbrotamál sem komið hefur á borð dómstóla hér á landi, á rætur að rekja til hlutabréfakaupa sheikh Mohammad Bin Khalifa Al-Thani frá Katar hinn 22. september 2008 en félag hans keypti 5,01 prósenta hlut í Kaupþingi banka fyrir 25,7 milljarða króna með láni frá bankanum.
Í dómi Hæstaréttar um ákvörðun refsingar segir m.a.: „Háttsemi ákærðu samkvæmt þessum köflum ákæru fól í sér alvarlegt trúnaðarbrot gagnvart stóru almenningshlutafélagi og leiddi til stórfellds fjártjóns. Brotin samkvæmt III. og IV. kafla ákæru beindust í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðinum hér á landi í heild og verður tjónið, sem leiddi af þeim beint og óbeint, ekki metið til fjár. Þessi brot voru stórum alvarlegri en nokkur dæmi verða fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot.“
Allir hinir dæmdu utan við Magnús Guðmundsson hafa hafið afplánun á dómum sínum.