Aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar Þjóðareign.is munu afhenda Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, 53.571 undirskrift klukkan þrjú í dag.
Í áskoruninni sem fólk skrifaði undir var skorað á Ólaf Ragnar að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu makrílfrumvarpi sjávarútvegsráðherra, sem náði á endanum ekki fram að ganga, og hverjum þeim lögum sem þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til meira en eins árs á meðan ekki er skýrt auðlindaákvæði í stjórnarskrá.
Aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar voru þau Agnar K. Þorsteinsson, Bolli Héðinsson, Guðrún Pétursdóttir, Henný Hinz, Jón Sigurðsson, Jón Steinsson og Þorkell Helgason.
Fimmta stærsta undirskriftasöfnunin
Áður en ráðist var í þessa undirskriftasöfnun tók Kjarninn saman fréttaskýringu um undirskriftasafnanir á undanförnum árum. Á þeim lista kemst þjóðareign í fjórða sætið. Tæplega 54 þúsund manns skrifuðu undir áskorun um að áframhald viðræðna við ESB færu í þjóðaratkvæðagreiðslu í fyrra og árið 2010 skrifuðu ríflega 56 þúsund manns undir lista gegn Icesave 2. Fjölmennasta undirskriftasöfnunin er hjartað í Vatnsmýri, sem ráðist var í árið 2013.
Ef litið er til lengri tíma kemur undirskriftasöfnunin Varið land, sem ráðist var í árið 1974, inn í þriðja sætið, en tæplega 56 þúsund manns skrifuðu undir hana. Þetta kemur fram í samantekt sagnfræðingsins Stefáns Pálssonar frá því í maí. Samkvæmt þeim lista er þjóðareign í fimmta sæti yfir stærstu undirskriftasafnanirnar.