Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur ekki ákveðið hvort hann bjóði sig fram aftur í embættið á næsta ári. Ólafur Ragnar hefur setið sem forseti frá árinu 1996 og hefur því gegnt embættinu í 20 ár þegar yfirstandandi kjörtímabili hans lýkur á næsta ári.
Forsetinn var gestur útvarpsþáttarins Sprengisands í dag. Þar sagðist hann finna fyrir því að margir vilji að hann haldi áfram sem forseti. Það finni hann víða, síðast á landsleik karlalandsliðs Íslands í gær. „Þegar ég mæti í skóla og annarstaðar er alltaf að koma fólk að mér og segja að ég eigi að halda áfram, það sýnir mér að þetta er í hugum margra.“
Ólafur Ragnar segir að hann muni ræða það við eiginkonu sína og dætur hvort hann eigi að bjóða sig fram á ný og að sú ákvörðun verði kynnt í nýársávarpi hans. Ástæðan fyrir því hann ákvað að bjóða sig aftur fram árið 2012 hafi verið vegna óska fjölda fólks um að gera það. "Þá var þjóðin að heyja margar örlagaglímur á mörgum sviðum. Þessum glímum er að mörgu leyti lokið. Ég hef aldrei talið mig ómissandi og ef ég tek þá ákvörðun um að hætta vona ég að því verði sýndur fullur skilningur.“