Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var gestur útvarpsþáttarins Sprengisands í gær. Þar lýsti Ólafur Ragnar því yfir að hann hefði ekki ákveðið hvort hann myndi bjóða sig fram til forseta í sjötta sinn á næsta ári, en þá hefur hann setið í embættinu í 20 ár.
Þetta er fjarri því í fyrsta sinn sem forsetinn tjáir sig í véfréttarstíl um áform sín undanfarið ár. Í nóvember í fyrra mætti hann í viðtal við sjónvarpsþáttinn Eyjuna eftir að hafa verið heldur spar á viðtöl um nokkurn tíma, og meðal annars neitað ítrekuðum fyrirspurnum RÚV um slík. Þar vildi Ólafur Ragnar ekki svara því hvort hann ætlaði sér að bjóða sig fram aftur en tók þó af allan vafa um að hann myndi sitja út kjörtímabilið. Hann hafði áður áskilið sér rétt til að gera það ekki. Ólafur Ragnar sagði að tilkynnt yrði um áform hans við þingsetningu eða í nýársávarpi.
Í júlí 2015 var forsetinn svo aftur mættur í viðtal, í þetta sinn á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Þar sagðist hann ekki hafa ákveðið hvort hann myndi bjóða sig fram aftur eða ekki. Sama dag og viðtalið var birt kom út nýr þjóðarpúls Gallup sem sýndi að sex af hverjum tíu Íslendingum vissu ekki hvern þeir vildu sem næsta forseta Íslands. Ellefu prósent þjóðarinnar sem hafði myndað sér afstöðu gagnvart spurningunni vildu Ólaf Ragnar Grímsson áfram á forsetastóli en 21 prósent aðspurðra vildu fá Jón Gnarr í hann, þótt að Jón hefði þegar gefið út að hann myndi ekki fara fram.
Við þingsetningu í september gaf Ólafur Ragnar síðan út óræða yfirlýsingu. Ólafur Ragnar sagði þá í ræðu sinni: „þegar ég nú, samkvæmt umboðinu sem þjóðin fól mér, set Alþingi í síðasta sinn flyt ég þinginu í senn djúpa virðingu mína og einlægar þakkir.“ Margir litu svo á að með þessu hafi Ólafur Ragnar boðað að hann bjóði sig ekki fram þegar forsetakosningar fara fram næsta sumar. Forsetinn sagði hins vegar að hann væri að setja Alþingi í síðasta sinn „samkvæmt umboðinu sem þjóðin fól“ honum. Slíkt umboð gæti hann endurnýjað ef hann byði sig fram á ný.
Það má velta því fyrir sér hvað valdi því að forseti þjóðarinnar ákveði að tala ætið með jafn óskýrum hætti um framtíðaráform sín og hann velur að gera. Hver svo sem ástæðan er virðist þjóðin, og fjölmiðlar hennar, hlaupa til við að túlka óræðar yfirlýsingar hans í hvert sinn sem hann velur að koma þeim á framfæri.