Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir ekki tímabært að takast á um hvort Íslendingar eigi að vinna olíu á Drekasvæðinu. Fyrst þurfi að rannsaka hvort þar séu eftirsóknarverðar olíulindir. Þá vill hann ekki segja til um á þessari stundu hvort hann muni bjóða sig aftur fram í embættið þegar yfirstandandi kjörtímabili lýkur eftir tæp tvö ár. Ólafur Ragnar tók þó allan vafa af um það að hann ætlar sér að sitja út kjörtímabilið hið minnsta. Þetta er meðal þess sem forsetinn tjáði sig um í viðtali við sjónvarpsþáttinn Eyjuna á Stöð 2.
Siglingar um norðurslóðir ekki framtíðarmúsík
Ólafur Ragnar hefur verið heldur spar á viðtöl undanfarin misseri. Kjarninn greindi meðal annars frá því í sumar að forsetinn hefði ítrekað neitað fyrirspurnum RÚV um viðtöl.
Hann mætti hins vegar í viðtal hjá Birni Inga Hrafssyni á Eyjunni í dag í tilefni þess að Arctic Circle ráðstefnunni, sem forsetinn stendur meðal annars að, lýkur í dag. Á ráðstefnunni eru norðurslóðarmál til umfjöllunar.
Margir binda vonir við að miklar olíulindir á Drekasvæðinu muni geta fært Íslendingum mikinn auð.
Ólafur Ragnar sagði það mikinn misskilning að skipasiglingar um norðurslóðir væru framtíðarmúsík. Alþjóðleg stórfyrirtæki væru að smíða skip sem munu geta siglt um svæðið án ísbrjóta. Forsetinn sagði að þau myndu ekki ráðast í slíkar smíðar nema ef siglingarmöguleikarnir væru veruleiki í dag. Ef skipulag athafna og samstarfs á norðurslóðum mistekst telur forsetinn það muna „koma niður á gervallri veröldinni“ vegna loftlagsbreytinga.
Ólafur Ragnar var spurður hvort Íslendingar ættu að nýta mögulegar olíulindir á Drekasvæðinu. Hann sagði ósköp eðilegt að rætt væri um hvað skyldi ganga langt í því en að við gætum leyft okkur að gera rannsóknir á Drekasvæðinu til að sjá hvort það sé hægt að nýta lindirnar eða ekki. „Við skulum ekki eyða tímanum í deilur sem eru kannski óþarfar“.
Mikilvægt að binda vinnáttubönd við Breta
Björn Ingi spurði Ólaf Ragnar út í það hvort hann fylgdist með hvernig Bretar væru að beita sér bakvið tjöldin til að þrýsta á að greitt væri út úr þrotabúum föllnu íslensku bankana. Bæði breska ríkið og bresk fyrirtæki eru á meðal kröfuhafa. Ólafur Ragnar sagðist ekki hafa fylgst „mikið með því hvað Bretar eða aðrir eru að gera bakvið tjöldin.“
Hann rifjaði í kjölfarið upp Icesave-málið og að Bretar, Hollendingar og Evrópusambandið hefðu tapað því máli. Hann hafi hins vegar unnið hart að því að bæta samskiptin í kjölfarið. „Ég hef talið það mikilvægt að binda á ný vináttuböndin við Bretland“, sagði Ólafur Ragnar.
Eyjan ekki vettvangur fyrir yfirlýsingu
Undir lok þáttarins var stuttlega rætt um hvort Ólafur Ragnar ætlaði sér að sitja út yfirstandandi kjörtímabil, en yfirlýsingar hans um það hafa verið afar misvísandi. Forsetinn tók af allan vafa um að hann ætlar sér ekki frá að hverfa fyrr en í fysta lagi þegar kjörtímabilið verður á enda runnið, eftir tæp tvö ár.
Aðspurður útilokaði Ólafur Ragnar ekki hvort hann hyggist bjóða sig aftur fram, en hann mun hafa setið á forsetastóli í 20 ár þegar kjörtímabilið verður á enda runnið. Forsetinn sagði þátt Eyjunnar ekki vera vettvang fyrir að tilkynna um slíka ákvörðun. Hefð sé fyrir því að forsetar landsins tilkynni um hvort þeir ætli að hætta eður ei í nýársávarpi eða við setningu þings.