„Þjóð getur aldrei þrifist á gagnrýninni einni saman, þótt læra þurfi af mistökum. Hún verður einnig að halda til haga hinum góðu verkum, heiðra það sem vel var gert, vita hve oft henni hefur tekist að ná og halda til jafns við aðra; hvaða verk skipa henni í fremstu röð." Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í nýársávarpi sínu.
Umræða um árangur og ágæti Íslands og Íslendinga og jákvæð sýn erlendra stofnana og háskóla á hana var forsetanum hugleikin að þessu sinni. Hann sagði að þótt það væri lítið í tísku hér heima að meta árangur og stöðu Íslands mikið þá hefðu tveir af fremstu háskólum Bandaríkjanna, Harvard og Cornell, og ein virtasta efnahagsstofnun veraldar, Alþjóða efnahagsráðið (e. World Economic Council), skipað okkur á mörgum sviðum í fyrsta sæti á meðal þjóða, eða að minnsta kosti á meðal hinna efstu.
Við höfum lengi haft á orði að glöggt sé gests augað og því er fróðlegt að kynnast dómum þeirra sem skoða Ísland úr fjarlægð og setja okkur í samhengi við önnur lönd
„Við höfum lengi haft á orði að glöggt sé gests augað og því er fróðlegt að kynnast dómum þeirra sem skoða Ísland úr fjarlægð og setja okkur í samhengi við önnur lönd.[...]Hin glöggu augu gestanna, sérfræðinga við Harvard, Cornell og Alþjóða efnahagsráðið, beina sjónum okkar Íslendinga að sigrum sem fyllt geta sérhverja kynslóð stolti og gleði; eiginleikum sem unga fólkið þarf einnig að fá í arf.
Ásamt bókmenntum okkar, tónlist og menningarlífi, vísindum og rannsóknum á náttúrunni og manninum, skapa þeir þættir sem hér var lýst Íslendingum orðspor sem laðar aðra til samstarfs og aflar okkur virðingar".
Vill útrýma fátækt
Forsetinn sagði þó að við sem þjóð vissum að margt þyrfti að bæta og að sumt í okkar þjóðfélagi væri jafnvel enn með þeim hætti að ekki yrði við unað til lengdar.
„Þar skiptir mestu, eins og ég hef áður ítrekað á nýársdag, að útrýma fátæktinni sem þjakar of marga, einstæðar mæður, aldraða og öryrkja. Nú þegar vöxtur er í flestum greinum, glíman við hrunið að mestu að baki, ættum við að sameinast um það sjálfsagða markmið að enginn Íslendingur þurfi að búa við fátækt, að öllum séu tryggð mannsæmandi lífskjör; uppfylla loksins kröfuna sem alþýðuhreyfingar settu á oddinn.
Við getum sótt kraft til nýrra verka í þann styrk sem Ísland nýtur, í áfangana sem nú eru öðrum uppspretta lærdóms og hvatningar. Hin unga kynslóð, sem senn erfir landið, getur glöð og stolt hafist hand byggt á bjargi sem ávinningar fyrri tíðar hafa myndað".
Hægt er að lesa nýársávarp forsetans í heild sinni hér.