„MS (Mjólkursamsalan) var beðin um gögn en afhenti ekki Samkeppniseftirlitinu gögn sem voru til. Við málflutning fyrir áfrýjunarnefnd komu ekki fram haldbærar skýringar á því að gögnunum hefði verið leynt fyrir stjórnvaldinu. Það er nú til rannsóknar hvers vegna gögnunum var leynt. Málflutningur forstjóra MS dæmir sig sjálfur í ljósi þessara staðreynda málsins.“
Svo hljóðar fréttatilkynning sem Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda sendi fjölmiðlum síðdegis þar sem hann bregst við ummælum Ara Edwald forstjóra MS á dögunum, þar sem hann sakaði Ólaf um rætnar ásakanir og vítaverð ummæli með því að halda því fram að MS hefði leynt Samkeppniseftirlitið gögnum við rannsókn á meintum samkeppnislagabrotum Mjólkursamsölunnar.
Samningur sem ekki kom fram við rannsókn málsins
Í fréttatilkynningunni sem Ólafur sendi í dag vitnar hann til tilkynningar frá Samkeppniseftirlitinu frá því í desember þar sem fram kemur að MS hafi lagt fram samning við meðferð málsins hjá áfrýjunarnefnd samkeppnismála, sem aldrei leit dagsins ljós við rannsókn eftirlitsins á meintum brotum MS, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið óskað eftir öllum gögnum tengdum málinu.
Þá vísar Ólafur til úrskurðar áfrýjunarnefndarinnar:
„Þótt ekki hafi komið haldbærar skýringar á því hjá áfrýjanda hvers vegna bæði samningurinn hafi ekki verið lagður fram við meðferð málsins hjá Samkeppniseftirlitinu né grundvallargögn um efndir hans og uppgjör hjá áfrýjunarnefndinni telur nefndin sér skylt á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar að koma málinu í þann farveg að upplýst sé um þessi atriði. Við munnlegan málflutning skýrðist málið ekki frekar að þessu leyti. Við svo búið telur áfrýjunarnefndin sér ekki unnt að taka efnislega afstöðu til málsins. Verður því ekki komist hjá því að ógilda hinn kærða úrskurð Samkeppniseftirlitsins og leggja fyrir eftirlitið að taka á ný afstöðu til málsins að undangenginni frekari rannsókn og að fengnum sjónarmiðum er varða þýðingu samningsins á milli áfrýjanda og KS frá 15. júlí 2008, uppgjöri á milli aðila hans og efndum á því tímabili sem meint brotastarfsemi stóð yfir.“
Samkeppniseftirlitið hefur því tekið málið aftur til meðferðar, en FA hefur óskað eftir því að málsmeðferðinni verði hraðað. Á meðal þess sem Samkeppniseftirlitið rannsakar eru ástæður þess að umræddur samningur var ekki lagður fyrir eftirlitið við rannsókn málsins, en viðurlög geta legið við því að halda upplýsingum frá eftirlitinu við rannsók máls.
Þá skrifar Ólafur að endingu: „Um þetta þarf ekki að hafa mikið fleiri orð. MS var beðin um gögn en afhenti ekki Samkeppniseftirlitinu gögn sem voru til.“