Stefnt er að skráningu Ölgerðar Egils Skallagrímssonar í Kauphöllina á næsta ári. Framtakssjóður í rekstri fjármálafyrirtækisins Virðingar ætlar þá að selja allan hlut sinn í fyrirtækinu, sem nemur samtals 28 prósentum. Frá þessu er greint í DV í dag. Fram kemur að undirbúningur að skráningu Ölgerðarinnar sé þegar hafinn. Ölgerðin fór í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu árið 2010.
Í umfjöllun DV er haft eftir Hannesi Frímanni Hrólfssyni, framkvæmdastjóra Virðingar, að á undanförnum árum hafi ýmsir fjárfestar reglulega sýnt hlutabréfum í Ölgerðinni áhuga. Hann bendir á að rekstur fyrirtækisins hafi farið batnandi á síðustu árum og markaðshlutdeild þess hafi stækkað.
Fyrirtækið Ölgerðin var stofnað árið 1913 og er einn stærsti gos- og áfengisframleiðandi á Íslandi, ásamt helsta keppinauti sínum Vífilfelli. Auk þess er Ölgerðin ein stærsta heildsala landsins með matvæli og ýmsa sérvöru.