Það er kannski gert of mikið af því, að tala um kjaraviðræðurnar og þær gríðarlegu deilur sem nú einkenna þær. Reynslumesta fólkið í stjórnmálum á Íslandi talar um að staðan um þessar mundir sé nær fordæmalaus. Verkalýðshreyfingin krefst þess að fá um og yfir 20 prósent launahækkun fyrir sína félagsmenn, á meðan atvinnurekendur horfa til þess að aðeins sé hægt að hækka laun um 3,5 til 5 prósent. Það sama má segja um kröfur BHM og BSRB gagnvart hinu opinbera.
Alveg ljóst er, að til þess að ná sátt um þessi mál, þá þarf að koma til mikill afsláttur af hálfu beggja. Atvinnurekendur hafa því miður ekki sýnt nægilega gott fordæmi, þegar kemur að launum stjórnarmanna og stjórnenda að undanförnu. Þau hafa hækkað langt umfram það sem atvinnurekendur telja að sé mögulegt hjá fólkinu á gólfinu. Það er ekki gott, og sýnir mikið ábyrgðarleysi.
Óháð öllu öðru, þá ætti almenningur að gera kröfu um aðeins eitt: Samningarnir mega ekki verða til þess að verðbólgudraugurinn fari á stjá og eyði launahækkunum fólks. Það bara má ekki gerast. Því miður er töluverð hætta á því. En á sama tíma verða atvinnurekendur að sýna ábyrgð, og horfast í augu við það, að líklega þurfi að grípa til nýrra meðala til þess að leysa úr erfiðri stöðu. Þar dettur bréfritara helst í hug, að hluthafar, einkum í stórum fyrirtækjum sem hafa skilað mikillli arðsemi á undanförnum árum, bjóðist til þess að taka minna til sín úr rekstrinum og greiði einfaldlega hluta af hagnaði hvers árs beint til starfsfólks. Einfaldlega skera kökuna upp á nýtt.
Í ákveðnum geirum er þetta vel mögulegt, t.d. í sjávarútvegi. Þar hefur mesta góðæri í sögu atvinnugreinarinnar hér á landi, átt sér stað að undanförnu og það er ekkert athugavert við það að fólkið á gólfinu fá meira til sín. Það sama má segja um marga aðra geira; hluthafar fyrirtækja, gætu verið lausnin að vandamálinu. Þeir þurfa að sýna í verki að þeir séu tilbúnir að gefa eftir, og deila ágóðanum með fólkinu á gólfinu.