Í meirihlutasáttmála Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar, sem kynntur var í byrjun júní, voru tiltekin 18 verkefni, sem nýr meirihluti í Reykjavíkurborg sagðist ætla að setja í forgang í upphafi nýs kjörtímabils.
Eitt forgangsmálanna var að hætta að rukka börn á grunnskóla fyrir ferðir með strætisvögnum. „Við ætlum að hafa ókeypis í Strætó fyrir börn á grunnskólaaldri,“ sagði meirihlutinn í kaflanum Fyrstu breytingar í samstarfssáttmálanum, sem alls taldi 32 síður.
Nú eru skólar hafnir á ný eftir sumarleyfi og margir reykvískir foreldrar hafa eflaust velt því fyrir sér hvort þeir þyrftu að fjárfesta í strætókortum fyrir grunnskólabörn sín, eða hvort verið væri að leggja lokahönd á útfærslu þeirra fyrirheita sem gefin voru í meirihlutasáttmálanum fyrir tæpum þremur mánuðum.
Samkvæmt Alexöndru Briem, borgarfulltrúa Pírata og fulltrúa borgarinnar í stjórn Strætó, er ekki enn ljóst hvernig eða hvenær loforð meirihlutans um að fella niður fargjöld grunnskólabarna verður uppfyllt.
Hún segir þó að borgaryfirvöld í Reykjavík ætli sér að láta gefin fyrirheit verða að veruleika, jafnvel þó að svo færi að önnur sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins myndu ekki vilja feta þennan veg.
„Í rauninni er það þannig að við eigum eftir að lenda því í stjórninni [hjá Strætó] hvernig við ætlum að taka á þessu. Það liggur fyrir að þetta myndi kosta eitthvað, og þá þurfum við annað hvort að sammælast um að gera það á Strætó-„leveli“ og öll sveitarfélögin að samþykkja að leggja til aukið fjármagn fyrir því. Ef það næst ekki samstaða um það þá þurfum við að skoða að gera þetta bara Reykjavíkumegin og það myndi þá bara gilda fyrir reykvísk börn,“ segir Alexandra í samtali við Kjarnann.
Kostnaðarmat liggur fyrir um miðjan september
Spurð um kostnað, tapaðar fargjaldatekjur Strætó af því að veita öllum börnum á grunnskólaaldri frítt í strætó, segist Alexandra ekki hafa þær tölur á reiðum höndum. Samkvæmt svari sem Jóhannes S. Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó veitti Kjarnanum verður þetta mál tekið til umræðu á stjórnarfundi Strætó þann 16. september og þá verður búið að kostnaðarmeta tilöguna.
Árskort í Strætó fyrir börn á aldrinum 12-17 ára kostar í dag 40 þúsund krónur hjá Strætó. Spurð út í mögulega endurgreiðslu slíkra korta, ef svo færi að einungis vikur eða mánuðir væru í að ókeypis yrði í strætó fyrir grunnskólabörn, segir Alexandra að henni þætti persónulega sanngjarnast ef árskort yrðu endurgreidd hlutfallslega miðað við þann tíma sem eftir er af árskortinu.
„En það er ekki komin nein lending á þetta samtal,“ segir Alexandra.