Heit umræða skapaðist um skipulagsmál í Reykjavíkurborg í Silfrinu á RÚV í morgun en þar voru mættir fjórir borgarfulltrúar til að ræða borgarmálin. Áherslan var m.a. á þéttingu byggðar og samgöngumál. Orð á borð við „menningarstríð“ voru notuð, sér í lagi í tengslum við borgarlínuna. Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks, sagði strætókerfið hafa verið látið „drabbast niður“ á kjörtímabilinu. Hann væri „með borgarlínu þar sem hún er skynsamleg“. Hildur Björnsdóttir, einnig borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, sem lýsti því nýverið yfir að hún vilji leiða flokkinn í næstu borgarstjórnarkosningum sem fram fara um miðjan maí, sagðist „ekki spennt fyrir stærðarinnar slaufum“ í umferðarmannvirkjunum en að hún vilji „borgarlínu og Sundabraut“. Hún kannaðist því ekki við þá lýsingu Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, borgarfulltrúa Viðreisnar, sem sagðist líða eins og í Harry Potter-mynd, þar sem ekki mætti segja orðið borgarlína.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, sagði Sjálfstæðisflokkinn „þríklofinn“ í skipulagsmálum og hafnaði þeim orðum Eyþórs að núverandi meirihluti vildi þvinga fólk út úr einkabílnum. Sífellt fleira fólk vilji komast um borgina með öðrum ferðamátum, sagði Dóra Björt. „Það er ekki hluti af okkar genasamsetningu að vilja aka bílum.“
Hildur sagðist hafa áttað sig á því er hún kom inn í borgarstjórn að umræða um skipulagsmál væri í skotgröfum. Hún kallaði umræðuna um samgöngu- og skipulagsmál „menningarstríð“ þar sem almannasamgöngum og einkabílnum væri til að mynda stillt upp á sitt hvorum pólnum. „Galdrarnir og töfrarnir felast í málamiðlunum,“ sagði hún. „Það er hægt að finna einhverja sanngjarna nálgun á hlutina þannig að allir geti fundið sinn stað í þessari borg.“
Hún segist hafa stutt borgarlínuverkefnið eins og það birtist í samgönguáætlun sem nyti stuðnings ríkis og bæjarstjórna í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur.
Þórdís Lóa, sem á sæti í meirihluta borgarstjórnar, sagðist taka undir með Hildi hvað varðar að allir eigi að geta fundið sinn stað í borginni. „Við erum alltaf að gefa þessum 5 prósentum, sem eru á sitt hvorum pólnum, of mikla athygli.“
Líkt og Dóra Björt hefði nefnt varðandi áhuga fólks á öðrum ferðavenjum en að nota bíl sýndu „öll gögn sem við fáum“ að fólk væri sammála þéttingu byggðar þótt slíkt þyrfti „sannarlega að gera í ákveðnum skrefum“. Hafa yrði þolinmæði fyrir undirbúningnum. Hugmyndir um þéttingu byggðar í Fossvogi væri dæmi um slíkt. Þar hefði verið kynnt hverfisskipulag sem væri fyrsta skrefið og til þess gert að fá fram umræðu og athugasemdir. Ný hverfi væru einnig að fara að rísa, m.a. á Höfða. „Allt tengist þetta lífsstílnum, samgöngunum og húsnæðinu.“ Ungt fólk vilji færri fermetra og góða þjónustu. Því kalli þyrfti að svara hratt og vel.
Fólk þvingað í borgarlínu - eða einkabílinn
Eyþór hefur gagnrýnt það hvernig borgarlínan er skipulögð innan Reykjavíkur, m.a. að taka eigi burt akreinar til að koma henni fyrir og „þrengja þar með að umferð“.
Egill Helgason, umsjónarmaður Silfursins, spurði hvort að Eyþór væri „í prinsippinu“ með eða á móti borgarlínu. „Ég er með borgarlínu sem er skynsamleg,“ svaraði Eyþór. Þrenging á aðra umferð væri ekki góð lausn. Verið væri eiginlega að „þvinga fólk til að taka borgarlínu og ég held að það sé röng nálgun“.
Dóra Björt, sem á sæti í meirihluta borgarstjórnar, sagði þetta ekki rétt. Miklu heldur mætti segja að verið væri að þvinga fólk til að aka bílum. Það hefði verið gert árum og áratugum saman, „einmitt eftir að Sjálfstæðisflokkurinn var hér við völd og innleiddi aðalskipulag einkabílsins á sínum tíma og breytti Reykjavík í bílaborg“.
Ekki á ábyrgð Hildar
Öflugar almenningssamgöngur snúist um að bregðast við fyrirsjáanlegri fólksfjölgun í borginni. „Þetta er skipulagsmál sem snýst um þéttingu byggðar og hvernig við byggjum upp göturnar í kringum það. Ef það er einhver sem staðið hefur fyrir menningarstríði þá er það Sjálfstæðisflokkurinn. Ég er ekki að segja að Hildur Björnsdóttir hafi borið ábyrgð á því. Hún hefur ekki verið hluti af því stríði. Alls ekki.“
Dóra sagði að það væri ekki „náttúrulögmál“ að það væri erfitt að komast um borgina án þess að vera á bíl.
Hildur sagðist „mjög fylgjandi stórbættum almenningssamgöngum“ og ekki vilja „plástralausnir“ heldur „mjög djarfar lausnir“. Egill spurði hana hvort hún væri fylgjandi borgarlínu?
„Já, algjörlega. Ég hef stutt borgarlínuverkefnið í samgöngusáttmálanum“ sem boðaði lausnir fyrir alla, hvort sem litið væri til einkabílsins, almenningssamgangna eða hjólandi og gangandi. Hins vegar sagði hún borgaryfirvöld vera með útfærslu á borgarlínu sem væri ekki í þeim sáttmála og nefndi hún sérstaklega Suðurlandsbrautina þar sem gert væri ráð fyrir að fækka akreinum. „Þetta fannst mér vera innlegg í þetta menningarstríð. Hvers vegna í ósköpunum, þegar við erum að reyna að ná sátt um framtíðar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, er verið að varpa þessari sprengju inn í umræðuna?“
Hún sagðist ekki vilja sá lausnir í samgöngumálum sem væru „árás hver á aðra“.
Þórdís Lóa sagði almenningssamgöngur snúast um tíðni og tíma. Þegar strætisvagnar sitji fastir í umferð væri ekki verið að spara tíma. „Þess vegna skiptir þessi sér akrein [á Suðurlandsbrautinni] gríðarlega miklu máli.“ Sagði hún fólk verða að þora að segja orðið „borgarlína“ upphátt. Bætti hún því við að hún væri mjög fylgjandi Sundabraut sem bæði Hildur og Eyþór nefndu sem hluta af lausninni.
„Auðvitað er borgarlína ekki hafin yfir gagnrýni,“ sagði Hildur. „Við verðum að geta tekið samtalið. Ef það kemur uppbyggileg gagnrýni þá verðum við að taka hana inn í umræðuna.“
Dóra Björt sagði málið snúast um að „flytja fólk en ekki farartæki“. Hágæða almenningssamgöngur, líkt og Hildur segðist vilja, þurfi sér rými. „Það þarf pláss undir það. Það er einföld eðlisfræði.“ Ekki ætti að hengja sig í umræðuna um eina akrein á Suðurlandsbraut. Hún sagði að fólk þyrfti valfrelsi.
Margir vilja breyta ferðavenjum
Flestar ferðir fólks innan borgarinnar „eru og verða með einkabílnum,“ sagði Eyþór. Borgarlína breytti engu þar um.
„Það er ekki hluti af okkar genasamsetningu að vilja aka bílum,“ sagði Dóra Björt þá. „Það er nú einfaldlega þannig að hvernig þú byggir upp samfélagið og skipulagsmálin móta hegðun okkar. Það er ekki bara þannig að Reykvíkingar vilji bílinn.“
Hildur sagði að í nýjum könnunum sýndi sig að það væri miklu stærri hópur fólks en hún hefði gert sér grein fyrir sem væri reiðubúið að gera breytingar á sínum ferðavenjum. „Það gerir það ekki nema að það fái góða og raunhæfa kosti. Þess vegna þurfum við að bjóða þessa valkosti.“