Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari stjórnar Eflingar, hefur tilkynnt um framboð sitt til forseta Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Þar með er komið fram mótframboð gegn Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, sem hafði áður tilkynnt að hann sæktist eftir því að verða næsti forseti ASÍ á þingi sambandsins sem hefst á mánudag. Drífa Snædal hætti sem forseti ASÍ í ágúst.
Í tilkynningu frá Ólöfu Helgu segir að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, vilji nú í valdabandalagi við Ragnar Þór Ingólfsson og Vilhjálm Birgisson, taka yfir ASÍ. Í gegnum hópuppsagnir á skrifstofu Eflingar fórnuðu þau trúverðugleika verkalýðshreyfingarinnar og félagsfólki fyrir eigin valdahagsmuni. Óljóst er hvað þríeykið vill með sambandið. En það hefur komið skýrt fram að þau munu ekki hafa rúm fyrir aðrar skoðanir en sínar eigin og vilja stjórna í krafti meirihlutaræðis. Allir sem mótmæla þeim fá yfir sig fúkyrðaflaum – og þegar önnur sjónarmið eru sett fram er þeim mætt með hótunum og offorsi.“
Ragnar Þór sá eini sem hafði tilkynnt framboð
Ragnar Þór greindi frá framboði sínu um miðjan september. Í samtali við Kjarnann sagði hann að í aðdragandanum hafi hann átt fundi með forystufólki úr aðildarfélögum innan ASÍ til að kanna hvort stuðningur væri við þær hugmyndir sem hann hefði um framtíð sambandsins og áherslubreytingar í störfum þess næðu út fyrir þann hóp stéttarfélaga sem staðið hefðu „dálítið þétt saman“ og átti hann þar við stéttarfélög í Grindavík, Akranesi og svo Eflingu stéttarfélag.
Drífa Snædal sagði af sér embætti forseta 10. ágúst og sagði hún samskipti við ýmsa kjörna fulltrúa innan sambandsins og sú blokkamyndun sem þar hefði átt sér stað gera sér ókleift að starfa áfram sem forseti.
Í yfirlýsingu sem hún birti er hún tilkynnti um brotthvarf sitt gagnrýndi hún forystu bæði Eflingar og VR og sagðist hafa þurft að „bregðast við linnulausri, en óljósri gagnrýni formanns VR“ á sín störf.
Átök í lengri tíma
Ólöf Helga og Sólveig Anna, formaður Eflingar, hafa átt í deilum á undanförnum mánuðum. Þær leiddu sitt hvorn listann í stjórnarkjöri Eflingar í febrúar. Þar bar listi Sólveigar Önnu sigur úr býtum, fékk 52 prósent greiddra atkvæða, en listi Ólafar Helgu fékk 37 prósent. Alls greiddu 3.900 af þeim 25.842 sem voru á kjörskrá atkvæði.
Sólveig Anna hafði sagt af sér sem formaður haustið 2021 og tók Agnieszka Ewa Ziólkowska við keflinu. Við það varð Ólöf Helga varaformaður Eflingar.
Kjarninn greindi frá því í gær að Agnieszka hefði fengið aðgang að tölvupósthólfum Sólveigar Önnu og Viðars Þorsteinssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Eflingar, frá því í janúar á þessu ári og fram í apríl. Aðgangurinn var virkur eftir að Sólveig Anna var endurkjörin sem formaður Eflingar og eftir að hún tók aftur við því embætti. Í álitsgerð lögmanns segir að athæfið sé brot á persónuverndarlögum og Sólveig Anna ætlar að tilkynna málið til Persónuverndar.
Hópur úr ellefu verkalýðsfélögum sem tilheyra ASÍ birtu aðsenda grein á Vísi í gær þar sem þeir lýstu yfir áhyggjum af stjórnarháttum Sólveigar Önnu og Ragnars Þórs. Á meðal þeirra sem skrifuðu undir þá grein var Ólöf Helga.
Kallaði Ólöfu Helgu „persónuverndar-glæponinn“
Sólveig Anna brást við aðsendu greininni og því að farið hafi verið inn í tölvupósthólf hennar í færslu á Facebook í gær. Þar kallaði hún hópinn sem stóð að greininni „smámenni verkalýðshreyfingarinnar“ sem þori aldrei að taka slaginn um málefnin. „Þau treysta sér aldrei í raunverulegt debatt um aðferðir, markmið, sýn, sigurmöguleika. Þess vegna ljúga þau því stöðugt að enginn málefnalegur ágreingingur sé til staðar (ég bendi á ný á greinaflokk minn á Kjarnanum sem að fer vel yfir allan málefnalega ágreininginn), þrátt fyrir að hann sé það svo sannarlega. Eða finnst ykkur, svo að dæmi sé tekið, að verkalýðsbarátta verka og láglaunafólks sé nákvæmlega sú sama núna og hún var áður en að ég og félagar mínir komumst til valda í Eflingu? Smámenni verkalýðshreyfingarinnar þora ekki einu sinni sjálf að bjóða sig fram. Þau bíða bara eftir því að fram stígi einhver sem að þau geta hugsað sér að kjósa. Þetta væri hlægilegt ef að þetta væri ekki svona aumkunarvert.“
Í gær sagði ég frá því á fundi miðstjórnar ASÍ að Agnieszka Ewa Ziolkowska og Ólöf Helga Adolfsdóttir hefðu þann 12....
Posted by Sólveig Anna Jónsdóttir on Thursday, October 6, 2022
Hún vonaði þó að hópurinn fyndi kjarkinn til að bjóða sig fram. „Ég vona að Finnbogi eða Þórarinn eða framapotarinn og persónuverndar-glæponinn Ólöf Helga gefi kost á sér til að leiða ASÍ, og þingfulltrúar fái að velja á milli þess gamla og hins nýja. Fái að velja á milli baráttuþreks og einbeittrar löngunar til að ná árangri fyrir vinnandi fólk, og aumingjaskapar og siðleysis. Ég trúi nefnilega á leikreglur lýðræðisins. Og það er alltaf gaman þegar að við fáum að kjósa að valkostirnir séu eins skýrir og hægt er að hugsa sér.“
Nú hefur Ólöf Helga orðið við þeirri áskorun.
Stuðningur var háður því að það þjónaði pólitískum hagsmunum formannsins
Í tilkynningu Ólafar Helgu segir einnig að ASÍ sé eitt það dýrmætasta sem launafólk á Íslandi eigi. „Að setja það baráttulaust í hendur fólks sem lætur eigin valdahagsmuni ganga fyrir hagsmunum almenns félagsfólks væri ámælisvert. Ég hef því tekið þá ákvörðun að bjóða mig fram til forseta ASÍ á þingi sambandsins sem hefst nú á mánudag.“
Þegar aðalmeðferð hafi farið fram í máli hennar fyrir Félagsdómi hafi lögmaður Eflingar fylgt málinu eftir. „ En nú brá svo við að formaðurinn kom hvergi nærri og þagði þunnu hljóði. Engin frétt var birt á síðu Eflingar, hvað þá myndefni og ekki var kallað til mótmæla eða sett fram ákall um samstöðu. Ástæða þessara sinnaskipta var einfaldlega sú að ég hafði hreyft öðrum skoðunum á starfi og framtíð Eflingar en Sólveig Anna Jónsdóttir. Ég gat því ekki annað en dregið þann lærdóm að opinber stuðningur félagsins míns væri háður því að það þjónaði pólitískum hagsmunum formannsins. Þetta var ekki aðeins sárt og óþægilegt fyrir mig, heldur ógnar svona framkoma réttindum og hagsmunum allra þeirra tugþúsunda einstaklinga sem eru félagar í Eflingu.“