Ólöf Nordal innanríkisráðherra ætlar að bjóða sig fram til varaformanns Sjálfstæðisflokksins. RÚV greinir frá, en Ólöf tilkynnti það á fundi með blaðamönnum á heimili sínu í Laugardal klukkan ellefu.
Nokkuð hefur verið skorað á Ólöfu að bjóða sig fram til embættisins undanfarið. Nokkur sjálfstæðisfélög hafa gert það sem og einstaklingar. Hún sagðist hins vegar ekki ætla að bjóða sig fram gegn sitjandi varaformanni.
Ólöf var varaformaður flokksins á árunum 2010 til 2013, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, núverandi varaformaður, hefur gegnt embættinu síðan þá.
Hanna Birna tilkynnti í vikunni að hún myndi ekki sækjast eftir endurkjöri á landsfundi flokksins síðar í mánuðinum. Hanna Birna sagði að hún hefði með stolti og ánægju verið reiðubúin að gegna áfram embættinu og hún hefði tekið þátt í málefnalegri kosningu og tekið niðurstöðunni. „En þegar nú blasir við að eina ferðina enn á að stilla ákvörðunum er mig varða upp sem einhverju uppgjöri við hið svokallaða lekamál þá finn ég sterkt að ég hvorki get né vil leggja enn einn slaginn um það mál á flokkinn, mig eða mína,“ sagði hún í yfirlýsingu.
Á blaðamannafundinum í dag sagði Ólöf einnig að hún hygðist bjóða sig fram til Alþingis í næstu kosningum, og það væri með hliðsjón af því sem hún hefði ákveðið að bjóða sig fram til varaformanns á ný. Ólöf hætti þingmennsku árið 2013 en tók við embætti innanríkisráðherra í lok síðasta árs þegar Hanna Birna hafði sagt af sér því embætti.