Ólöf Nordal innanríkisráðherra segist ekki vera búin að taka ákvörðun um hvort hún bjóði sig fram til varaformanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundi hans sem fer fram eftir um tvo mánuði. Ólöf segist fyrst þurfa að taka ákvörðun um hvort hún ætli í framboð fyrir næstu kosningar. Það sé grundvallarákvörðun sem hún verði að taka áður en hún aðrar ákvarðanir séu teknar. Margir hafi rætt við hana um að það sé ánægja með að hún hafi stigið aftur inn á hið pólitíska svið. Þetta kom fram í viðtali við Ólöfu í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag.
Ólöf, sem er fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, var skipaður innanríkisráðherra í desember 2014 í kjölfar þess að Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér sem innanríkisráðherra vegna lekamálsins svokallaða. Hún hafði setið á Alþingi frá 2007 til 2013 en ákvað þá að hætta í stjórnmálum. Ólöf er því ekki þingmaður þrátt fyrir að vera ráðherra. Þegar hún tók við embætti innanríkisráðherra var hún að stíga upp úr erfiðum veikindum, en hún greindist með krabbamein sumarið 2014.
Hanna Birna gaf það út eftir afsögn sína að hún hyggðist sitja áfram sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Ekki liggur þó fyrir hvort hún muni bjóða sig aftur á landsfundi flokksins sem fer fram 23. október næstkomandi.
Ólöf ræddi einnig um afsagnir ráðherra á Íslandi, sem eru afar fátíðar. „Við höfum ekki þá hefð sem Englendingar, eða Bretar fara, að menn eru bara reknir [...]Mér finnst að við ættum að hafa einhvern milliveg í þessu.“ Það sé einnig mikilvægt að líta ekki svo á að pólitískur ferill þeirra sem segi af sér sé búinn. Það sé vel hægt að starfa áfram farsællega og lengi í stjórnmálum eftir að hafa sagt af sér. Guðmundur Árni Stefánsson, sem sagði af sér ráðherraembætti árið 1994, sé gott dæmi um það.