Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir í viðtali við mbl.is, að Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, þurfi ekki að hætta sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, vegna þess sem kemur fram í úrskurði Persónuverndar, um að brotið hafi verið gegn lögum.
Í viðtali við mbl.is segist hún treysta Sigríði Björk fyrir þeim viðkvæmu störfum sem hún sé ráðin til að sinna, og að úrskurður Persónuverndar breyti engu um það. Málið allt, það er hið svonefnda lekamál, sé til marks um mikilvægi þess að yfirfara meðferð persónuupplýsinga hjá innanríkisráðuneytinu.
„Ég treysti henni til þeirra viðkvæmu starfa sem hún gegnir. Þetta mál hefur í heild sinni hefur varpað sérstöku ljósi á allt vinnulag, verkferla, stöðu aðstoðarmanna og fleiri hluti og okkur ber skylda til þess að fara mjög rækilega yfir það og alltaf með það í huga að vernda sérstaklega viðkvæmar upplýsingar um fólk,“ segir Ólöf í viðtali við mbl.is.
Í úrskurði Persónuverndar, sem Kjarninn birti fyrstur fjölmiðla á föstudag, kemur fram að Sigríður Björk braut lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga þegar hún sendi Gísla Frey Valdórssyni, þáverandi aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur greinargerð um hælisleitandann Tony Omos og fleiri.
Þá studdist beiðni Gísla Freys ekki við viðhlítandi lagaheimildir um miðlun persónuupplýsinga, samkvæmt úrskurði Persónuverndar. Þá er Útlendingastofnun gagnrýnd fyrir að hafa ekki gætt viðunandi öryggis við miðlun framburðarskýrslu Tony Omos til innanríkisráðuneytisins.
Í úrskurðarorði segir:
Miðlun Lögreglunnar á Suðurnesjum á skýrsludrögum með persónuupplýsingum um Tony Omos, Evelyn Glory Joseph og fleiri einstaklinga til innanríkisráðuneytisins hinn 20. nóvember 2013, sem og beiðni ráðuneytisins þar að lútandi, studdist ekki við viðhlítandi heimild.
Skortur á skráningu um miðlun draganna í málaskrá lögreglunnar á Suðurnesjum, sem og um öflun þeirra í málaskrá innanríkisráðuneytisins, fór í bága við kröfum um upplýsingaöryggi. Hið sama gildir um skort á skráningu um mótttöku ráðuneytisins hinn 20. nóvember 2013 á framburðarskýrslu Tony Omos frá Útlendingastofnun.
Ekki var gætt viðunandi öryggis við miðlun fyrrnefndra skýrsludraga til ráðuneytisins frá Lögreglunni á Suðurnesjum og fyrrnefndrar framburðarskýrslu frá Útlendingastofnun til ráðuneytisins.
Úrskurður Persónuverndar er dagsettur 25. febrúar, en undir hann ritar meðal annars Björg Thorarensen, lagaprófessor, sem er stjórnarformaður Persónuverndar.
Sigríður Björk sendi frá sér yfirlýsingu á föstudag þar sem hún neitar að hafa brotið lög.
Kjarninn óskaði eftir viðbrögðum frá ráðherra við úrskurðaði Persónuverndar á föstudag, en fékk þau svör að Ólöf hygðist tjá sig um málið í dag. Hún hefur ekki veitt Kjarnanum viðtal vegna málsins ennþá, en samkvæmt upplýsingum frá Jóhannesi Tómassyni, upplýsingafulltrúa innanríkisráðuneytisins, hyggst hún gera það í dag.
Kjarninn birti úrskurð Persónuverndar í heild sinni fyrir helgi. Hann má lesa hér.
http://kjarninn.s3.amazonaws.com/old/2015/02/Kjarninn_urskur--ur.pdf