Ólöf Nordal, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, verður næsti innanríkisráðherra. Þetta hefur Kjarninn fengið staðfest innan úr þingflokki Sjálfstæðisflokks, sem fékk fréttir af skipun Ólafar á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í morgun.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, sem sagði af sér sem innanríkisráðherra á dögunum, mun formlega láta af störfum á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í dag, þar sem skipun Ólafar verður formlega staðfest. Málaflokkur dómsmála mun í kjölfarið aftur fara undir innanríkisráðuneytið.
Í tilkynningu til fjölmiðla segir:
Ólöf var varaformaður Sjálfstæðisflokksins 2010–2013. Hún sat á Alþingi fyrir Norðausturkjördæmi 2007–2009 og Reykjavíkurkjördæmi suður 2009–2013.
Ólöf er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA–gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur víðtæka starfsreynslu og hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa. Á þingi sat Ólöf meðal annars í samgöngunefnd sem varaformaður, í allsherjarnefnd, utanríkismálanefnd, stjórnskipunar– og eftirlitsnefnd, fjármálanefnd, kjörbréfanefnd og sérnefnd um stjórnarskrármál.
Áður en hún tók sæti á Alþingi var hún framkvæmdastjóri Orkusölunnar og þar áður framkvæmdastjóri sölusviðs RARIK, 2004–2005 og yfirmaður heildsöluviðskipta hjá Landsvirkjun, 2002–2004.
Ólöf var deildarstjóri lagadeildar Háskólans á Bifröst, frá 2001–2002 auk þess sem hún sinnti stundakennslu við skólann 1999–2002 samhliða starfi sínu sem lögfræðingur Verðbréfaþings Íslands á árunum 1999–2001. Á árunum 1996–1999 gegndi hún starfi deildarstjóra í samgönguráðuneytinu og starfaði í lögfræðideild Landsbanka Íslands 1995–1996.
Eiginmaður hennar er Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa í Evrópu og Mið-Austurlöndum, en saman eiga þau fjögur börn.