„Ég er þeirrar skoðunar að Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera þar sem hann er. Ég tel hins vegar brýnt að menn reyni, eins og reynt hefur verið, að ná einhvers konar samkomulagi við þá sem ráða í borginni og beri virðingu fyrir þeim sjónarmiðum sem þar hafa komið fram.“ Þetta sagði Ólöf Nordal, þáverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins í ræðu á Alþingi þann 30. mars 2011. Ólöf var í morgun skipuð nýr innanríkisráðherra í stað Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem sagði af sér embættinu í síðasta mánuði.
Fimmtán þingmenn Framsóknarflokksins lögðu fram frumvarp í byrjun síðasta mánaðar sem felur í sér að skipulagsvald á Reykjavíkurflugvelli yrði fært frá borgaryfirvöldum til ríkisvaldsins. Vilji þeirra með framlagningu frumvarpsins er að festa staðfestingu flugvallarins í sessi í Vatnsmýrinni.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra, sagðist ekki styðja frumvarpið. Í samtali við RÚV þann 6. nóvember síðastliðinn sagði hún ítrekað hafa sagt að sér finnist „skipulagsvald sveitarfélaga næstum því vera heilagt. Og mér finnst ekki að ríkið eigi að skipta sér af því. Mér finnst að við verðum að treysta sveitarfélögunum, vinna með sveitarfélögunum, taka mið af því að þau hafa þetta vald og það er þeim mjög mikilvægt, og það er lýðræðinu líka mjög mikilvægt.“
Framtíð Reykjavíkurflugvallar er mikið pólitískt þrætuepli.
„Reykjavíkurflugvöllur er ekki að fara nokkurn skapaðan hlut“
Þann 30. mars 2011 var framtíð Reykjavíkurflugvallar til umræðu á Alþingi. Ólöf Nordal, þáverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem var skipaður innanríkisráðherra í morgun, tók þátt í þeim umræðum. Þar sagði hún meðal annars: „Ég er þeirrar skoðunar að Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera þar sem hann er. Ég tel hins vegar brýnt að menn reyni, eins og reynt hefur verið, að ná einhvers konar samkomulagi við þá sem ráða í borginni og beri virðingu fyrir þeim sjónarmiðum sem þar hafa komið fram.
Mér finnst sú umræða sem hér er að vissu leyti dálítið ótímabær. Við vitum að efnahagsástandið er með þeim hætti að þessi umræða er ekki beinlínis á dagskrá. Reykjavíkurflugvöllur er ekki að fara nokkurn skapaðan hlut. Hvort sem menn byggja samgöngumiðstöð eða ekki er það svo að þetta er ekki brýnasta verkefnið sem menn ættu að standa frammi fyrir núna. Ef hægt væri að ná samkomulagi við Reykjavíkurborg um að bæta aðstöðuna á Reykjavíkurflugvelli — ég hygg að við sem höfum notað flugvöllinn, og það býst ég við að allir hér inni geri, gerum okkur grein fyrir að aðstaðan þar er ekki viðunandi og hana þarf að bæta — ef hægt væri að ná niðurstöðu á þeim nótum sem hæstv. innanríkisráðherra nefndi áðan í góðu samkomulagi við borgaryfirvöld hygg ég að það sé mjög mikilvægt skref í þá átt að ná sátt um innanlandsflugið og Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er og menn geri sér þá í leiðinni grein fyrir mikilvægi hans fyrir landið allt.“