Lesendur Kjarnans geta frá og með deginum í dag greitt fasta upphæð mánaðarlega til fjölmiðilsins til að efla starfsemi hans. Í boði er að greiða þrjár mismundandi upphæðir. Samhliða hefur Þórunn Elísabet Bogadóttir verið ráðin aðstoðarritstjóri Kjarnans og Birna Anna Björnsdóttir tekið sæti í stjórn hans.
Kjarninn hefur nú verið starfandi í um 20 mánuði. Á þeim tíma hefur hann einbeitt sér að umfjöllun um brýnustu mál samfélagsins með gagnrýnum og upplýsandi hætti. Viðtökurnar hafa verið vonum framar og ljóst að Kjarninn er orðinn fastur hluti af fréttaneyslu Íslendinga.
Efni Kjarnans hefur á þessum tíma verið aðgengilegt öllum án endurgjalds. Hjalti Harðarson, framkvæmdastjóri Kjarnans, segir að fjölmargir lesendur hafi á þeim tíma sett sig í samband og óskað eftir að fá að greiða fyrir þá þjónustu sem Kjarninn veitir. „Þessum óskum hefur fjölgað mjög undanfarnar vikur. Vegna þeirra, og metnaðar okkar til að bæta verulega í starfsemina, höfum við ákveðið að bjóða áhugasömum upp á að greiða mánaðarlega til Kjarnans. Með því styðja þeir við frjálsa, gagnrýna, opna og óháða fjölmiðlun á Íslandi. Kjarninn.is verður eftir sem áður opin og aðgengileg öllum.“
Hægt er að greiða til Kjarnans hér.
Hjálpa til við að móta framtíð Kjarnans
Þeir sem greiða framlag til Kjarnans munu einnig fá að taka þátt í viðhorfskönnunum sem hafðar verið til hliðsjónar við stefnumótun. Þannig fá lesendur Kjarnans að hjálpa til við að móta framtíð Kjarnans með beinum hætti. Í nánustu framtíð verður svo boðið upp á aukna þjónustu við þá sem greiða framlag.
Öll framlög fara í að efla starfsemi Kjarnans: ráða fleira fólk, auka fréttaþjónustu og fjölga þeim fjölmiðavörum sem við bjóðum upp á. Því fleiri sem taka þátt, því stærri, metnaðarfyllri og umsvifameiri Kjarni.
Þórunn ráðin aðstoðarritstjóri og Birna Anna í stjórn
Birna Anna Björnsdóttir, nýr stjórnarmaður í Kjarnanum.
Þórunn Elísabet Bogadóttir hefur verið ráðin aðstoðarritstjóri Kjarnans. Hún hefur starfað við fjölmiðla frá árinu 2007 og tók meðal annars þátt í stofnun Kjarnans sumarið 2013. Þórunn hefur undanfarna mánuði starfað hjá Viðskiptablaðinu. Hún er með B.A. gráðu í stjórnmáláfræði frá Háskóla Íslands og MSc gráðu í alþjóðlegum og evrópskum stjórnmálum frá Edinborgarháskóla.
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, segir ráðninguna mjög mikilvæga fyrir Kjarnann. „Þórunn þekkir okkur vel og er gríðarlega reyndur blaðamaður. Hún kemur með aukna breidd og mikil gæði inn í teymið og mun styrkja Kjarnann til muna.“
Þá hefur Birna Anna Björnsdóttir, sem nýverið keypti 7,2 prósent hlut í Kjarnanum miðlum ehf., sest í stjórn félagsins. Þar með eru kynjahlutföll stjórnarmanna í Kjarnanum jöfn, en fyrir í stjórn eru Hjálmar Gíslason stjórnarformaður, Vilhjálmur Þorsteinsson og Guðrún Inga Ingólfsdóttir.