Opnað hefur verið fyrir viðskipti með skuldabréf útgefin af ríkissjóði og Íbúðalánasjóði, hlutabréf í tryggingarfélögunum TM, VÍS og Sjóvá og hlutdeildarskírteini í ákveðnum verðbréfasjóðum. Viðskipti í Kauphöllinni hófust á nýjan leik klukkan 14 með tíu mínútna uppboði. Fjármálaeftirlitið stöðvaði í morgun viðskipti með ríkisbréf, íbúðabréf, hlutabréf tryggingafélaga og ákveðna verðbréfasjóði Landsbréfa og Íslandsbanka. Var það gert til að vernda jafnræði fjárfesta í aðdraganda kynningarfundar stjórnmála á aðgerðum hennar við losun fjármagnshafta. Fundurinn hófst í Hörpu klukkan tólf og lauk um klukkustund síðar.
Upplýsingarnar á fundinum gátu verið verðmyndandi á hluta- og skuldabréfamarkaði og ákvað FME því að loka fyrir viðskipti þar til honum lyki. Á fundinum kynntu fjármálaráðherra og forsætisráðherra veigamiklar aðgerðir við losun fjármagnshafta sem meðal annars fela í sér stöðugleikaskatt, gangi kröfuhafar slitabúa gömlu bankanna ekki að nauðasamningum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.