Alls hefur verðmæti langtímasamninga Orkuveitu Reykjavíkur (OR) um raforkusölu til álvera aukist um tæpa átta milljarða króna frá ársbyrjun vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði áls. Þessi virðisbreyting er aðalástæðan fyrir því að OR skilaði miklum hagnaði það sem af er ári. Þetta kemur fram í nýbirtum samstæðureikiningi OR fyrir fyrstu níu mánuði ársins.
Dótturfélögin skila hagnaði
Samkvæmt uppgjörinu var nam rekstrarhagnaður Orkuveitunnar á tímabilinu um 10,9 milljörðum króna
Rúmlega þriðjungurinn af rekstrarhagnaðinum, eða um 3,7 milljarðar króna, kemur frá Veitum, dótturfélagi OR sem sér um veiturekstur hennar í heitu og köldu vatni, dreifingu rafmagns og fráveitu. Orkusala og framleiðsla samstæðunnar skilaði svo 431 milljónum króna í hagnaði.
Afkoma af annarri starfsemi samstæðunnar, líkt og Ljósleiðarans, sem sér um rekstur gagnaflutningskerfis, og Carbfix, sem sér um föngun og förgun kolefnis, var einnig jákvæð, en samkvæmt árshlutareikningnum nam hún tæpum tveimur milljörðum króna á tímabilinu.
Tveir þriðju vegna verðmætari orkusamninga
Stærsti hagnaðarliður OR á fyrstu níu mánuðum ársins var hins vegar virðisaukning langtímasamninga hennar um raforkusölu, vegna tengingar hluta þeirra við álverð sem er nú í hæstu hæðum.
Þessi virðisaukning var bókfærð sem fjármunatekjur að andvirði 7,8 milljarða króna á tímabilinu. Því má rekja um tvo þriðjuhluta af hagnaði OR á tímabilinu til þessarar virðisaukningar.
Norðurál borgar tvöfalt meira
OR hefur gert tvo langtímasamninga um orkusölu við Norðurál, sem rekur álver á Grundartanga. Í öðrum þeirra samdi Orkuveitan og HS orka um að selja 292 megawött til Norðuráls á tímabilinu 2006 til 2028, en í hinum þeirra var samið um sölu á 47,5 megawött á tímabilinu 2011-2036
Ekki hefur náðst að aflétta trúnaðarákvæði í fyrri samningnum, en í þeim seinni fylgir orkuverðið heimsmarkaðsverði á áli. Samkvæmt upplýsingum sem eru til á heimasíðu Norðuráls hefur raforkuverðið sem tengt er þessum samningi tvöfaldast frá byrjun faraldursins, úr 18 Bandaríkjadölum á Megawattsstund í 36.