Kaupmáttur launafólks á Íslandi er að jafnaði 5,5 prósentum meiri í dag en hann var fyrir ári síðan, samkvæmt mælingum Hagstofunnar á launaþróun og kaupmætti. Kaupmáttur launa hefur aukist hratt undanfarna mánuði. Það má helst skýra með lágri verðbólgu auk þess sem Hagstofan tekur fram að það gætir áhrifa bæði nýrra og eldri kjarasamninga ríkis og sveitarfélaga við nokkur stéttarfélög.
Vísitala kaupmáttar launa stendur í 121,9 stigum í janúar og hefur aldrei verið hærri. Vísitalan braut 120 stiga múrin í nóvember síðastliðnum, og var það í fyrsta sinn síðan í júní 2007 sem hún gerði það. Hér að neðan má sjá þróun vísitölunnar frá ársbyrjun 2005.
Á sama tíma og verðbólga mælist aðeins tæplega 1 prósent þá hafa laun hækkað um 6,3 prósent, samkvæmt mælingum Hagstofunnar. Það hefur skilað sér í auknum kaupmætti, þar sem laun hafa hækkað umfram verðlagshækkanir. Hér að neðan má sjá hvernig kaupmáttur launa síðustu tólf mánuði hefur breyst frá árinu 2005. Kaupmáttur launa lækkaði mikið árið 2008 en hefur farið vaxandi allt frá miðju ári 2010.
Kaupmáttur launa sýnir hversu mikið af vöru og þjónustu hægt er að kaupa fyrir launin. Óbreyttur kaupmáttur frá fyrra ári þýðir að hægt er að kaupa sambærilega vörukörfu og þá. Þegar litið er til kaupmáttar er þannig tekið tillit til verðbólgunnar, þ.e. almennra verðlagsbreytinga, ólíkt því þegar eingöngu er litið til þróunar launa. Launamaður ætti í dag að geta keypt ríflega 5% meira af vörum og þjónustu fyrir laun sín en fyrir tólf mánuðum síðan.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir voru á RÚV síðustu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.