Auka þyrfti orkuframleiðslu innanlands um 124 prósent ef ríkisstjórnin vill framfylgja settum markmiðum um orkuskipti og ef orkunotkun stóriðjunnar og annarra orkufrekra útflutningsgreina heldur áfram að aukast. Hins vegar gæti aukningin verið þriðjungi minni ef greinarnar auka ekki framleiðslu sína á tímabilinu. Þetta kemur fram í nýútgefinni skýrslu frá starfshópi á vegum ráðuneytisins um stöðu og áskoranir í orkumálum.
Í skýrslunni er framtíðarorkuþörf metin samkvæmt fimm sviðsmyndum, eftir því hvernig orkuskiptum vindur fram hérlendis og hvaða forsendur væru gefnar um framleiðslu innanlands. Allar sviðsmyndir gera ráð fyrir að orkuþörfin aukist á næstu árum, jafnvel þótt orkuskiptin muni ekki nást nema að litlum hluta.
Samkvæmt sviðsmyndunum sem gera ráð fyrir að ríkisstjórnin nái öllum settum markmiðum sínum um full orkuskipti á landi, sjó og í lofti fyrir árið 2040 mun viðbótarorkuþörfin á næstu 18 árum nema að minnsta kosti 15,6 terawattsstundum. Þetta jafngildir um 82 prósenta aukningu miðað við núverandi orkuþörf.
„Skýr skilaboð“
Starfshópurinn bætir þó við annarri sviðsmynd, þar sem gert er ráð fyrir áframhaldandi vexti í framleiðslu stórnotenda raforkunnar. Samkvæmt hópnum er þessi vöxtur talinn með í grunnorkuþörf samfélagsins þar sem stórnotendurnir, sem er að uppistöðu stóriðjan, hafa staðið undir stórum hluta útflutningstekna Íslands.
Ef gert er ráð fyrir þá sviðsmynd myndi orkuþörfin aukast um tæpar 24 terawattsstundir, eða um 124 prósent, á næstu árum. Hópurinn segir þetta jafngilda um 100MW í aukinni raforkuframleiðslu á ári, sem gefi „skýr skilaboð“.
Þessi sviðsmynd, sem sýnir mesta vöxtinn í raforkuþörfinni, var unnin út frá niðurstöðum greininga hjá sérfræðingum frá Samorku, RARIK, Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjun, Landsneti og verkfræðistofunni Eflu. Starfshópinn sem skrifaði skýrsluna skipuðu Vilhjálmur Egilsson, fyrrum framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, og Ari Trausti Guðmundsson, fyrrum þingmaður VG.
Í kynningu á skýrslunni í dag sagði Ari Trausti að hópurinn tæki ekki afstöðu til þess hvaða leið væri farin, það væri samfélagsins að meta það. Í skýrslunni er það einnig tekið fram að almenn samstaða sé ekki fyrir hendi um helstu áherslur í náttúruvernd og aðra umhverfistengda þætti þegar kemur að orkuframkvæmdum, en þar sagði starfshópurinn að mikilvægt væri að ná sem mestri sátt um raforkukerfið og orkuþörf samfélagsins.