Athugasemd ritstjórnar: Uppgjör OR fyrir fyrsta ársfjórðung var fyrst birt í maí síðastliðnum. Það var endurbirt í dag vegna viðbótar á enskri útgáfu skýrslu um fjár- og áhættustýringu.
Hagnaður af rekstri Orkuveitu Reykjavíkur var 3,3 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi 2015. Tekjur félagsins á tímabilinu námu um 11 milljörðum króna og rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam rúmlega 7,2 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall félagsins hefur styrkst frá áramótum og er nú 34,6 prósent.
Orkuveita Reykjavíkur er að 93,5 prósent hluta í eigu Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaður á 5,5 prósent og Borgarbyggð um 0,9 prósent. Forstjóri OR er Bjarni Bjarnason.
Uppgjör félagsins fyrir fyrsta ársfjórðung var birt í dag, í kjölfar samþykktar reikningsins í stjórn OR. Í tilkynningu til Kauphallar segir að mikill árangur hafi náðst í fjár- og áhættustýringu í rekstri. Samhliða árshlutareikningi er gefin út skýrsla um markmið OR síðustu ár, hvað hefur áunnist og að hverju er unnið.
Í árshlutareikningnum er ekki að finna samanburð við sama ársfjórðung í fyrra né önnur rekstrartímabil, eins og venjan er. Í tilkynningu til Kauphallar er ástæðan sögð uppskipting OR í upphafi árs 2014. Vegna þessa sé samanburður við fyrra ár ekki gerður.
„Með aukinni festu í rekstrarumhverfi OR, aðhaldi í rekstrinum sjálfum og bættri áhættustýringu hafa tekjur og gjöld fyrirtækisins orðið fyrirsjáanlegri og afkoman traustari. Sú áætlun sem eigendur OR og stjórn fyrirtækisins hleyptu af stokkunum 2011, Planið, hefur gengið eftir og gott betur. Það hefur skilað sér í hærra eiginfjárhlutfalli, sem var 34,6% í lok uppgjörstímabilsins, 31. mars 2015.
Rétt er að benda á að afkoma OR er gjarna best á fyrsta fjórðungi árs. Það á trúlega einnig við í ár þar sem framkvæmdakostnaður er síður kominn fram vegna erfiðs tíðarfars í vetur og vor,“ segir í tilkynningu.