Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi gagnrýna Bjarna Benediktsson formann flokksins harðlega fyrir að hafa ekki valið Guðrúnu Hafsteinsdóttur til að gegna ráðherraembætti fyrir hönd flokksins og segja halla á landsbyggðina við ríkisstjórnarborðið.
Í sameiginlegri ályktun frá stjórnum fulltrúaráða sex svæðisfélaga flokksins í kjördæminu er „furðu“ og „gríðarlegum vonbrigðum“ lýst yfir og kallað eftir frekari útskýringum frá Bjarna á þeirri ákvörðun að gera Guðrúnu ekki að ráðherra nú þegar.
Eins og kynnt var í morgun mun Guðrún verða innanríkisráðherra síðar á kjörtímabilinu. Jón Gunnarsson, þingmaður Suðvesturkjördæmis, byrjar hins vegar í því ráðherraembætti og víkur síðan fyrir Guðrúnu.
Sunnlenskir sjálfstæðismenn eru þó afar ósáttir við hvernig málum er háttað.
„Það að veita Guðrúnu Hafsteinsdóttur ráðuneyti einungis hluta kjörtímabilsins er eins og blaut tuska í andlitið á þeim þúsundum kjósenda Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og öllum þeim hundruðum sjálfboðaliða sem tóku þátt í að tryggja glæst gengi flokksins,“ segir í ályktun stjórna fulltrúaráða Sjálfstæðisfélaganna í Suðurkjördæmi.
Höfuðborgarsvæðiskjördæmin eiga tíu ráðherra af tólf
Auðvelt er að færa rök fyrir því að það halli nokkuð á landsbyggðarkjördæmin í þeirri nýju ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem kynnt var í dag.
Af ráðherrunum tólf eru einungis tveir sem voru kjörnir á þing í landsbyggðarkjördæmum, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir sem er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og Sigurður Ingi Jóhannsson sem leiddi Framsókn í Suðurkjördæmi. Enginn ráðherra kemur var kjörinn á þing í Norðausturkjördæmi.
Fjórir ráðherrar koma hinsvegar úr Suðvesturkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmin tvö eiga hvort um sig þrjá fulltrúa við ríkisstjórnarborðið. Við innkomu Guðrúnar í ríkisstjórnina í stað Jóns, eins og boðað hefur verið, verður vægi landsbyggðarkjördæmanna þó ögn meira.